145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[12:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fer fram á að við greiðum sérstaklega atkvæði um lið 09-381 á bls. 13. Ég legg til að við fellum hann, sem er ömurlegasta tillaga sem ég hef flutt hér á þingi. Það er til komið vegna þess að því miður virðist það samkomulag sem var komið í höfn, sem er búið að bíða eftir í áratugi um að jafna lífeyrisréttindi á milli opinberra starfsmanna og almenna vinnumarkaðarins, ekki hafa haldið þegar á hólminn var komið. Ég vil vekja athygli þingmanna og þjóðar á því að við höfum bara þessa opnun núna á þessu ári til að gera þetta sem allir í orði kveðnu hafa verið sammála um síðustu áratugina að við ættum að gera. Því miður hefur eitthvað komið upp á. Ég ætla ekki að benda á einn eða neinn en vil vekja athygli á alvöru málsins. Ég vonast til að við náum að klára þetta fyrir áramót en legg því miður til, með sorg í hjarta, að við fellum þessa tillögu.