145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

631. mál
[12:20]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í gær voru greidd atkvæði í 2. umr. í þessu máli. Ég ætla að viðurkenna hér og nú að mér láðist að gera athugasemd við nefndarálit sem ég er á. Það er á þskj. 1685 og ég undirritaði þetta nefndarálit án fyrirvara en þegar ég fer að lesa það í smáatriðum sé ég að þarna er kafli sem ég ætla að biðjast fyrirgefningar á að ég hafi ekki gert fyrirvara við. Það er kaflinn um sértryggð skuldabréf. Vissulega hafa ákvæði hans gengið til baka með framhaldsnefndaráliti en þegar ég stend frammi fyrir augliti guðs og þarf að gera grein fyrir gerðum mínum vil ég helst að ég hafi beðist fyrirgefningar á því að hafa sett nafnið mitt við þetta, þetta er svo vitlaus kafli. Þetta er algjörlega á skjön við efni frumvarpsins og kemur þessu máli nákvæmlega ekkert við. Ég biðst (Forseti hringir.) afsökunar og fyrirgefningar á því að hafa komið nálægt þeim kafla.