145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

854. mál
[12:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að náðst hefur góð samstaða um þetta mál í þinginu. Við höfum á síðustu missirum innleitt nýjar endurgreiðslureglur varðandi kvikmyndaiðnaðinn í landinu og nú erum við að bæta hér við tímabundnum endurgreiðslum vegna hljóðritunar á tónlist. Þetta er talið af þeim sem starfa í þessum geira mjög mikilvægt og verði til þess að styrkja og efla grósku á þessum vettvangi hérlendis.

Ég vil að gefnu tilefni nefna það í þessu samhengi að það varð að sátt í hv. atvinnuveganefnd í gær að nefndarmenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar mundu leggja fram þverpólitískt mál sem snýr að frjálsum félagasamtökum í landinu, þ.e. að þau geti þegar þau eru að fara að byggja sér aðstöðu yfir starfsemi sína leitað til fjármálaráðuneytisins um samning og fengið endurgreiddan virðisaukaskatt þar sem þau eru endagreiðendur að virðisaukaskatti.

Í ljósi þess hversu vel hefur tekist til við að ná samstöðu um svona mál og að keyra svona ívilnandi (Forseti hringir.) mál í gegn held ég að við ættum að sameinast um það í þinginu og horfa til þessa máls og afgreiða það með sama hætti.