145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

854. mál
[12:26]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Af hverju heita þessi lög lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist? Ég held að það sé ekki nokkur ætlun að lögin verði til skamms tíma, ekki frekar en lög um tímabundna endurgreiðslu til kvikmyndagerðar sem hafa verið í gildi í áratugi. Nú þegar hefur því verið lýst yfir að menn séu komnir í biðsalinn að bíða eftir frekari sértækum aðgerðum til ívilnunar í skattalegu tilliti. Ég bendi á t.d. myndlistarmenn, þeir taki sér þá bara sæti fyrir aftan félagasamtökin sem eru komin á biðlistann. Enn og aftur samþykkir Alþingi sértækar aðgerðir til ívilnunar tilteknum stéttum, þvert ofan í þær hátíðarræður sem menn sammælast hér yfirleitt um að halda um mikilvægi vandaðrar lagasetningar, um að lög séu skýr, einföld, gagnsæ og almenn, enn og aftur.