145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

höfundalög.

870. mál
[12:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér aftur hljóðs til þess að ítreka ákveðin atriði sem ég held að skipti máli. Í fyrsta lagi að sú leið að leggja gjaldið á tækin felur í sér þann vanda að það eru ýmsir sem nota þessi tæki ekki þannig að um sé að ræða afritagerð á höfundaréttarvörðu efni. Þar með væri verið að leggja gjald á þá sem kaupa sér síma eða önnur tæki og nota þau ekki með þeim hætti sem um er að ræða. Það er í sjálfu sér líka óréttlæti. Með því að vinna þetta með þeim hætti sem við gerum erum við vissulega að taka gjaldið úr ríkissjóði en það er síðan gert, og þá kem ég að því sem var nefnt áðan, með málefnalegum, gegnsæjum hætti og það er bundið í lögum hvaða tollflokka er um að ræða og hvaða álagningarprósentu er um að ræða þannig að það þarf þá að gera lagabreytingu til að breyta þessu, til að breyta gjaldinu. Þess vegna er það ekki bara geðþóttaákvörðun ráðherra við gerð fjárlaga eða eitthvað þess háttar sem ræður tillögunni heldur þarf þingið að taka afstöðu til einhverra breytinga hér á. Það er það sem ég tel vera nýmæli og gott nýmæli, til fyrirmyndar, þar sem við speglum gjaldtökuna en síðan greiðum við úr ríkissjóði. Ég tel að það sé (Forseti hringir.) sanngjörn og rétt leið til að tryggja réttindi þeirra hópa sem um ræðir.