145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

höfundalög.

870. mál
[12:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta er svo áhugaverð umræða að ég gat ekki setið á mér að blanda mér í hana. Það sem mér finnst svo merkilegt við þetta frumvarp er að það er vitnisburður um hvað löggjafarvaldið er oft langt á eftir tækniþróuninni. Veröldin er að breytast svo hratt beint fyrir framan nefið á okkur og það eru eiginlega flestir hættir að gera stafræn afrit eða afrit af lögum yfirleitt. Flestir eru hættir að nota kassettur og geisladiska, lögum er núna streymt, þá meina ég tónlist en ekki lögum frá Alþingi, þótt það væri fínt að streyma þeim líka. Viðfangsefnið sem er fram undan gagnvart tónlistarmönnum og öðrum listamönnum er auðvitað að reyna að tryggja að í þeim heimi, sem er núna orðinn þannig að fólk getur einfaldlega hlustað á lögin eins og í útvarpi í tölvunum sínum og ipödum og símum, í þeim veruleika fái listamennirnir umbun fyrir sína góðu vinnu.