145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

Grænlandssjóður.

894. mál
[14:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma upp til að fagna þessari breytingu. Hún er löngu tímabær og kemur vonandi þeim til góða sem sækja í sjóðinn. Eins og var rakið hefur ekki verið úthlutað úr sjóðnum síðan árið 2011 og eru nægir fjármunir til. Aðstæður hafa breyst í íslensku efnahagslífi sem hefur gert það að verkum að ekki hefur verið hægt að úthluta úr honum. Sjóðnum er ætlað að stuðla að auknum samskiptum Grænlendinga og Íslendinga og hefur hv. framsögumaður málsins verið í forsvari þar. Styrkir eru veittir til kynnisferða, námsdvalar, listsýninga, íþróttaviðburða og annarra málefna á sviði menningar, menntunar og vísinda og er vert að geta þess að þetta virkar í báðar áttir, þ.e. auglýst er á Íslandi og Grænlandi þannig að hægt er að sækja um í báðum löndum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Mér finnst mikilvægt að þetta komist á koppinn. Hér var gerð grein fyrir því að sjóðurinn endist í áratugi þrátt fyrir þessa breytingu, sem skiptir auðvitað miklu máli. Ég hef ekki myndað mér skoðun á 2. gr. þar sem á að fækka í stjórn sjóðsins. Ég var ekki viðstödd þegar málið var lagt fram og veit ekki alveg hvaða rök voru fyrir því þannig að ég tek ekki beinlínis afstöðu til þess. Þetta er hins vegar hið besta mál og nær vonandi fram að ganga hér á lokametrum þingsins.