145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vaxtagreiðslur af lánum almennings.

[15:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta eru hinar sígildu umræður um kjörin á Íslandi þar sem við berum okkur gjarnan saman við hin Norðurlöndin þegar kemur að lánaformi. Munurinn á því sem er í boði á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum kemur víða fram og það hefur svo sem verið kannað ítrekað. Þegar maður veltir fyrir sér Norðurlöndunum eru í boði ýmist verðtryggð eða óverðtryggð lán. Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir fer mjög ítarlega ofan í þennan samanburð í afar góðri ritgerð þar sem fram kemur mismunurinn á vöxtum og sambærilegum lánum í íslenskum og sérstaklega norskum bönkum. Þar kemur líka fram að lánstíminn á Íslandi er lengri en í Noregi og eins hvaða áhrif það hefur á lánakjörin.

Við þekkjum þá sögu að flestir á Íslandi taka lán á verðtryggðum kjörum vegna þess að þar er minni afborgun en af hinum óverðtryggðu. Unga fólkinu okkar gengur illa að koma sér þaki yfir höfuðið en í Noregi hefur Husbanken aðstoðað efnaminni fjölskyldur við að koma sér þaki yfir höfuðið. Þar bjóðast lægri vextir af íbúðalánum og svo er það munurinn, sem við höfum gjarnan rætt hér, á kaupverði íbúðaláns og veitts láns frá viðskiptabanka. Það sem er áhugavert þar er að fólk á aldrinum 18–34 ára fær betri vaxtakjör og getur munað allt að hálfu prósenti. Það skiptir máli.

Þar er ekki fákeppni á markaði í bönkum eins og hér á landi. Svo búum við við uppgreiðsluvanda og annað slíkt sem þekkist ekki erlendis. Það er alveg klárt að viðskiptavinir bankanna í Noregi eru metnir út frá eigin verðleikum en ekki stöðu bankans (Forseti hringir.) hverju sinni.