145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vaxtagreiðslur af lánum almennings.

[15:18]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Mig langar að taka dálítið nýjan vinkil og heyra hvað hæstv. fjármálaráðherra finnst um það sem ég mun leggja til og hvort hann telji að þær hugmyndir geti haft áhrif á peningastefnu Seðlabankans. Mig langar að heyra hvort hann telji að breyttir vísitöluútreikningar geti haft áhrif á vaxtaákvarðanir og þá jafnvel og vonandi til lækkunar.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að taka upp samræmda vísitölu neysluverðs í stað vísitölu neysluverðs. Sá munur er á þeim vísitölum að í samræmdri vísitölu neysluverðs er ekki gert ráð fyrir húsnæðisliðnum inni í. Samræmd vísitala neysluverðs er ekki óþekkt fyrirbæri en hún þekkist og er notuð í OECD-ríkjunum. Oft í ræðum og riti viljum við líka bera okkur saman við ýmsar skýrslur og annað sem þaðan kemur.

Ef við skoðum bara þann mismun sem er á útreikningi milli þessara vísitalna hefði verðbólgan verið 0,4% ef við hefðum verið með samræmda vísitölu neysluverðs síðustu 12 mánuði miðað við nýjar tölur Hagstofunnar. Mig minnir að hún haf verið 1,8% miðað við nýjar leiðréttar tölur Hagstofunnar síðustu 12 mánuði því að við notumst við vísitölu neysluverðs. Þetta hefur haft þau áhrif að verðtryggð eignasöfn banka hækka meira vegna þess að vísitalan er hærri og hefur þar með áhrif út í allt hagkerfið. Einnig hafa ýmsir hagfræðingar haldið því fram að vegna útbreiðslu verðtryggðra eigna- og lánasafna í landinu bíti þessar stýrivaxtaákvarðanir ekki á hagkerfið og hafi ekki þau áhrif á það sem þau eiga að hafa.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji að breytingar á útreikningi vísitölu eða afnám verðtryggingar geti haft áhrif á vaxtaákvarðanir (Forseti hringir.) peningastefnu Seðlabankans til lækkunar á vöxtum.