145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vaxtagreiðslur af lánum almennings.

[15:22]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Vegna orða hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur áðan langar mig að vekja athygli á því að breytingin á vísitölu skiptir mestu máli yfir tíma, ekki endilega hvað er í henni. Þegar húsnæðisverð hækkar meira en hitt sem er í körfunni, eins og gerist núna, getum við sagt að samræmda vísitalan sé hagstæðari vegna þess að hún hækkar ekki jafn mikið og vísitalan sem við notum. En hvað hefði gerst eftir hrun þegar húsnæðisverð lækkaði mjög mikið? Hvað hefði gerst þá ef við hefðum ekki verið með húsnæðisverðið inni? Þá hefði vísitalan hækkað miklu meira en hún gerði og verðtryggðu lánin hefðu hækkað miklu meira en þau gerðu. Málið er að vísitalan og verðtryggingin felst í samanburði á milli tíma. Þess vegna var talað um það í gamla daga — ég er alltaf að koma því að að ég var ekki fædd í gær — að fikta í vísitölunni. Það var fiktað í vísitölunni. Þá voru menn að fiffa og breyttu vísitölunni til og frá til að eitthvað kæmi hagstæðara út. Síðan fundu menn náttúrlega út eftir smátíma að versta hagstjórnin sem til var var sú að fikta í vísitölunni. Það var alltaf verið að breyta málbandinu. Ef maður lengir alltaf málbandið mjókkar maður ekki.

Þess vegna skiptir engu máli í línunni og hvernig verðlag hækkar hvort við notum samræmdu vísitöluna eða ekki yfir langan tíma. Hins vegar getum við tekið stutt tímabil og sagt: Þá er betra að hafa þetta og þá er betra … (Forseti hringir.) Ætlum við þá bara að skipta um málband annan hvern dag eftir því hvað við erum mjóar í mittið?