145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vaxtagreiðslur af lánum almennings.

[15:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Vegna þess að fram kom í umræðunni að háir stýrivextir í gegnum tíðina hafi mögulega laðað áhættufé hingað heim til Íslands vil ég minna á lögin sem við settum í sumar. Á grundvelli breytinga á lögum um gjaldeyrismál getur Seðlabankinn sett reglur um bindingu reiðufjár vegna tiltekins nýs innstreymis. Það er afskaplega mikilvægt.

Að öðru leyti nefndi ég í fyrri ræðu minni að þessi umræða snýst að hluta til um framkvæmd peningastefnunnar og hvers konar peningastefnu við viljum reka. Peningastefnan sem við erum með fylgir verðbólgumarkmiði. Það þýðir að við erum með útistandandi loforð á hverjum tíma um að beita öllum tiltækum ráðum til að halda verðbólgunni við það viðmið, 2,5%, sem gefið hefur verið út. Hvernig hefur það tekist? Það hefur ekki tekist vel. Við njótum í augnablikinu meiri stöðugleika og meiri velgengni hvað þetta snertir en lengi hefur átt við. En það er ekkert að furða þegar svo illa gekk svona lengi að standa við loforðið sem felst í peningamálastefnunni sem mynduð var, að menn spyrji sig hvað sé að í raun og veru.

Mér finnst gott að við tökum þá umræðu hvort við eigum að fylgja verðbólgumarkmiði eða hugsanlega einhverju öðru markmiði eða tvinna saman við verðbólgumarkmiðið t.d. markmiði um efnahagslegan stöðugleika og horfa þar með til atvinnustigsins á hverjum tíma. Ég held að Íslendingar ættu að gera meira af því að spyrja sig: Hvers vegna öfundast ekki Svíar eða Norðmenn út í okkur fyrir allar launahækkanirnar sem hér verða? Hvers vegna lítur ekki fólk sem þar er á almennum vinnumarkaði öfundaraugum til Íslands? Þar hækka launin um 10% á ári. Hvers vegna öfundast menn ekki út í það? Hvers vegna óska menn ekki eftir því sama í heimalandinu? Svarið er ósköp einfalt; vegna þess að dæmið gengur ekki upp til lengdar með þeirri aðferðafræði sem við höfum beitt. Við verðum að taka höndum saman og hætta að reyna að finna sökudólginn. Sökudólgurinn er hvorki Seðlabankinn né íslenska krónan, það er sú staðreynd að (Forseti hringir.) þinginu og vinnumarkaðnum hefur ekki tekist að smíða nýtt módel, nýjan ramma utan um það hvernig hlutirnir eiga að gerast. Það er leiðin að lægri vöxtum.