145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir prýðilega ræðu og samstarf í nefndinni. Mig langar að heyra hvað hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, af því að eitthvað var rætt um þunna fjármögnun og uppi voru vangaveltur um hvort við værum að ganga nægilega langt, finnst um þá millilendingu sem var farin og hver næstu skrefin ættu að vera þegar reynsla er komin á þetta. Eins og kom fram í ræðu þingmannsins, og mér finnst gríðarlega mikilvægt að halda til haga, þá þrífst spillingin í myrkrinu og í skugganum. Þó svo að fyrir liggi að um 600 lögaðilar voru með reikninga í Panama-skjölunum er vert að halda því til haga að sá gagnaleki kom aðeins frá einum banka eða einu fyrirtæki sem aðstoðaði við að setja upp reikninga í skattaskjóli. Maður veltir fyrir sér hvort hægt sé að ganga lengra.

Ég ræddi aðeins við Transparency International í Noregi, þau voru með ákveðnar tillögur um hvernig væri hægt að bregðast við því sem kom fram í Panama-lekanum. Að sjálfsögðu fagnar maður því að verið sé að stíga einhver skref, en ég velti fyrir mér hvort við séum að ganga nógu langt. Er verið að stíga, og kannski eðlilega, varfærin skref til að ná tökum á þessu? Er möguleiki að ná tökum á þessu víðtæka vandamáli sem við erum að reyna að glíma við í þessum lagabókstaf?