145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[15:58]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir svörin. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að alveg eins og lönd geta komið sér saman um að vera í leyndarhjúpi geta önnur lönd komið sér saman um að taka ekki þátt í samstarfi við slík ríki. Það eru margir sem átta sig kannski ekki á því að eitt stærsta skattaskjólið í námunda við okkur er í City of London. Talað er um að Sviss sé með mikla „pólisíu“ varðandi það að viðhalda sínum skattaskjólum. Aðalatriðið og það sem skiptir meginmáli í þessu er einmitt sú staðreynd að þeir sem hafa tök á því geta gert þetta og þar með skapast mismunun. Allir vildu vera menn með mönnum og skrá sig í skattaskjól af því að það var eitthvert „trend“ á Íslandi; fólk virtist ekki alveg átta sig á því að þarna væri verið að skapa ofboðslega mikla mismunun. Og þó svo að fólk hafi ekki endilega verið með mikla fjármuni sýndi það samt ákveðna hugsun að vilja vera í skattaskjóli frekar en vera með allt uppi á borðum. Maður heyrði alls konar afsakanir þar að lútandi í kjölfar Panama-skjalanna. En í ljósi þess að þarna skapast tvö skattstig, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom inn á áðan, spyr ég: Hvað ætli það sé mikið af fjármunum, sem hægt hefði verið að nota í að byggja upp innviði Íslands, sem eru týndir þarna á ýmsum svæðum heimsins sem eru skattaskjól?