145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er rándýr spurning og ég á ekki svar við henni, þessari síðustu spurningu. En þetta eru einmitt svo mikilvæg atriði sem hv. þingmaður kemur inn á. Það er svolítið séríslenskt fyrirbæri, held ég, að við eigum mörg heimsmet miðað við höfðatölu. Við erum til dæmis með tugi þúsunda einkahlutafélaga sem eru í raun og veru bara utan um einstaklinga, sem er mjög óvenjulegt. Við virðumst líka hafa sett heimsmet í að setja fjármuni í skattaskjól, jafnvel þótt við værum ekki með neina fjármuni þar undir, bara að nýta þetta sniðuga nýja tæki. Við höfum áður sett heimsmet í verðbréfaviðskiptum þar sem allir voru skyndilega orðnir verðbréfamiðlarar án þess að hafa kannski sérstakt vit á því. Ísland er svo lítið samfélag, breytingar verða hér svo sterkar og miklar. Þar má til dæmis nefna Facebook-notkun Íslendinga þar sem við erum í raun búin að búa til einn allsherjargagnagrunn um nánast alla þjóðina á Facebook þar sem eitthvert amerískt fyrirtæki getur haft aðgang að því hvað nánast hver einasti Íslendingur borðar í kvöldmat, svo dæmi sé tekið. Eitt er þetta, með þessa miklu tilhneigingu til þessa.

En ef við horfum kerfislægt á þetta má segja að tilhneigingin sé sú að það séu fyrst og fremst hinir mjög svo efnamiklu sem nýti sér þessi aflandsfélög. Það er auðvitað ástæðan fyrir því til dæmis að við höfum engar raunverulegar heimildir um það hvernig eignum og auðæfum er skipt í heiminum. Á það hefur verið bent að kannski sé öruggasta heimildin fyrir því hverjir séu ríkustu menn heimsins tímaritið Forbes sem birtir einhvern lista. En þar, ef maður kynnir sér þann lista, er í raun og veru bara verið að draga ályktanir út frá þeim gögnum sem eru tiltæk, sem eru ekkert sérstaklega mikil. Það er umhugsunarefni að þetta liggur bara ekkert fyrir af því að við erum búin að byggja upp þetta kerfi, þennan leyndarhjúp. Og það þarf auðvitað samstillt átak ríkja sem vilja breytingar til að sporna gegn þessu og fá aukið gagnsæi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)