145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er ánægjulegt að uppljóstrurum hefur tekist að móta samfélög og aðstoða við að gera samfélög okkar að einhverju leyti heiðarlegri, opnari og gagnsærri. Svo sannarlega má segja það um þann aðila sem lak gögnum fyrst til þýsks fjölmiðils, sem síðan hóf gríðarlega stórt og umfangsmikið samstarf við virt dagblöð víða um heim til þess að reyna að vinna sig í gegnum þær flóknu upplýsingar sem voru í þeim leka. Vil ég nota tækifærið og þakka þeim aðila sem kom þeim upplýsingum áleiðis fyrir hugrekkið, því að það er ekki aðeins á Íslandi sem þetta hefur ýtt við fólki, eða þingmönnum eða öðrum aðilum, til að bregðast við á uppbyggilegan hátt með því að spýta í lófana þegar kemur að því að setja lög um aðgerðir gegn skattsvikum.

Ég kom í efnahags- og viðskiptanefnd fyrir ekki löngu síðar. Við höfum verið að taka fyrir verulega flókin mál í nefndinni og verð ég að hrósa formanninum, hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, fyrir þá vinnu sem hefur átt sér stað í nefndinni. Þetta eru mál sem eru ekki einungis flókin af því að þau eru efnahagsmál, en það er alltaf talað um að efnahagsmál séu svo gríðarlega flókin af einhverjum ástæðum, það ætti að vera þannig að hvert einasta barn gæti skilið þau því að í skilningnum og upplýsingunni er ákveðið gagnsæi. Ég vil líka þakka öðrum nefndarmönnum fyrir samvinnuna og mér hefur fundist mjög lærdómsríkt að vera í þessari nefnd. Ég hef mikinn áhuga á efnahagsmálum og sérstaklega mikinn áhuga á því að við getum notað lögin okkar til að tryggja að allir búi við sömu lög, því að margir hafa upplifað að lög virki bara fyrir almenning og síðan hafi einhverjir aðilar fundið sér leiðir í kringum lögin til þess að vera svokallaðir „untouchables“.

Það er nefnilega málið með svona lög að þó að þau séu fullkomin — reyndar er ekki til neitt fullkomið og sér í lagi ekki lög en þótt þau séu eins góð og mögulegt er er hætt við því að lögin standist ekki tímans tönn ef andi laganna og samfélagið er ekki í heild sammála því að lögin séu réttlát. Það er eitt af því sem ég hef oft bent á á þessum vinnustað, að það er mjög mikilvægt að við hættum bókstafstrú á lagabókstafinn og förum að leyfa okkur að skynja anda laganna. Það verður að segjast að þegar ég sat á fundi nefndarinnar, við vorum að hlusta á aðila úr ráðuneyti fara yfir einn tiltekinn lið laganna, þá fékk ég svolítinn hroll. Það laut að þeim lið sem tengist vinnslu tollyfirvalda á persónuupplýsingum. Nú veit ég ekki hversu margir þingmenn hafa séð hina ágætu bíómynd Minority Report en mér leið svolítið eins og það ætti að fara að lögfesta þannig heimildir fyrir tollyfirvöld. Í umsögnum frá ráðuneytinu sjálfu var einsýnt að það var í raun markmið þessa bálks innan laganna og má eiginlega segja að sá bálkur hafi verið laumufarþegi. Ég er nefndinni óendanlega þakklát fyrir, eftir töluvert mikil samskipti við t.d. Persónuvernd og aðra aðila, að hafa áttað sig á því að þessi grein laganna bæði samræmdist ekki endilega markmiði laganna og var með allt of miklar heimildir til að nýta sér það sem má kalla stafræna kóngulóarvefinn. Þess vegna gleðst ég yfir því að í staðinn fyrir að taka inn 17., 18. og 21. gr. frumvarpsins var ákveðið að fella þær brott og að áður en heimildir tollyfirvalda til vinnslu persónuupplýsinga ættu sér stað þyrfti, og nefndin féllst á og setti inn bráðabirgðaákvæði um það, að tilgreina nákvæmlega heimildir tollyfirvalda til vinnslu persónuupplýsinga, að undangengnu ítarlegu hagsmunamati þar sem litið yrði til þeirra almennu persónuverndarsjónarmiða sem reynir á við meðferð persónuupplýsinga annars vegar og hins vegar þess hvort vinnsla telst nauðsynleg með tilliti til almannahagsmuna.

Nefndin ákvað sem sagt að setja líka eftirfarandi inn:

„Með tilliti til athugasemda Persónuverndar telur nefndin æskilegt að afmarka nánar heimildir tollyfirvalda til vinnslu persónuupplýsinga. Nefndin leggur því til að 17., 18. og 21. gr. frumvarpsins falli brott en starfshópi verði falið að móta tillögur um heimildir tollyfirvalda til vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal til öflunar og nota persónuupplýsinga, að undangengnu hagsmunamati. Í starfshópnum verði m.a. fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, innanríkisráðuneyti, lögreglu, Persónuvernd og tollstjóra.“

Ég er mjög ánægð með að ákveðið var að fara þessa leið af því að eftir að ég kom á þing hef ég tekið eftir því að það eru alls konar laumufarþegar í alveg ótrúlega mörgum lögum, það er með ólíkindum hvað það er reynt að fá heimildir til þess að fara inn í persónugögn okkar. Í þessu tilfelli, sem mér fannst svo ótrúlegt og rosalegt, kom m.a. fram frá ráðuneytinu að það var ekki bara það að fá að samkeyra þessa gagnagrunna, t.d. er LÖKE gagnagrunnurinn rosalega viðamikill og nauðsynlegt að málaskrá lögreglu sé að einhverju leyti einfölduð og það sé alvörueftirlit og alvörulög og reglugerðir um það hvernig á að eyða fólki úr þessum gagnagrunnum. Það er þannig að ef einhver kemur oft inn í þessa málaskrá lögreglunnar fylgir það t.d. nánum ættingjum, sem er náttúrlega með ólíkindum. Síðan eru upplýsingar þarna um látið fólk og ef maður tilkynnir að kötturinn manns sé týndur er maður kominn á málaskrá lögreglu og svo mætti lengi telja, og það er með mjög alvarlegum glæpum. Sem betur fer erum við með fólk á þingi núna sem er með sérstakan fókus á mannréttindi í hinum stafræna heimi því að þau mannréttindi eru að sjálfsögðu nákvæmlega þau sömu og í raunheimum. Það virðist oft gleymast þegar reynt er að fá heimildir til þess að safna og vinna með persónuupplýsingar okkar.

Mig langar til að grípa aðeins niður í það sem kom fram hjá ráðuneytinu, sem var rökstuðningur með því að heimila það sem við höfum ákveðið að bíða með. Þar stóð t.d, með leyfi forseta:

„Óhjákvæmilegt er að persónuupplýsingar séu nýttar í slíkum störfum.“ — Sem sagt áhættustjórnun við tolleftirlit. — „Þær viðkvæmu persónuupplýsingar sem tollstjóri hefur í raun þörf fyrir að nýta við tolleftirlit og í greiningarvinnu eru upplýsingar sem falla undir b- og c-liði 8. töluliðar 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þ.e. annars vegar upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað og hins vegar upplýsingar um“ — takið eftir — „lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun. Með því að greina þessar upplýsingar getur verið unnt að koma auga á ákveðið munstur“ — takið eftir, forvirkar rannsóknarheimildir — „og greina aðila sem telja má líklegri en aðra til að gefa rangar upplýsingar við innflutning vöru eða flytja inn vörur sem bannað er að flytja inn eða sæta öðrum innflutningstakmörkunum.“

Þegar ég sá þetta, forseti, hugsaði ég: Hvað í ósköpunum hefur þetta að gera með meginmarkmið þessa frumvarps, sem er frumvarp til laga um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum? Sem betur fer, og það hefur verið sérstaklega ánægjulegt við vinnslu á þessu tiltekna frumvarpi, eru nefndarmenn upp til hópa í þessari tilteknu nefnd með opinn huga og tilbúnir til að hlusta hver á annan, sem mér finnst gríðarlega mikilvægt í nefnd af þessu tagi. Það hafa verið gerðar fjöldamargar breytingartillögur á öðrum liðum frumvarpsins, sem að mínu mati styrkja það og gera það betra. Ég vona að þetta verði fyrsta ferlið, fyrstu stóru skrefin til að ná utan um þá skaðlegu háttsemi sem stórfelld skattsvik eru og þau áhrif sem þau hafa á samfélag okkar. Það voru líka fleiri hlutir sem ég var ánægð með að við skyldum ná lendingu með, t.d. skilgreiningu á fastri starfsstöð. Það náðist ákveðin sátt um það.

Það má segja að við munum væntanlega vera með einhverjar leiðir til þess að grípa þá sem ætla að fara í gegnum grisjótt lög, eins og hefur verið gert varðandi þunna eiginfjármögnun. Það þýðir í raun og veru, segjum að maður byggi upp fyrirtæki á Íslandi og það er hluti af einhverju öðru fyrirtæki, auðvitað kostar eitthvað að starta því en svo fara þessi fyrirtæki oft í blússandi hagnað og þá er hægt að haga málum þannig, af því að fyrirtækið skuldar eitthvað í öðru landi, að hægt er að færa þetta einhvern veginn á milli þannig að það er eins og menn séu áfram í mínus og þeir þurfa þá í raun og veru ekki að taka þátt í að greiða til samfélagsins. Það er alltaf frekar ömurlegt þegar þetta eru risafyrirtæki og það eru engin fyrirtæki eins slæm með svona lagað og alþjóðafyrirtæki, tökum sem dæmi Starbucks, Apple og hin og þessi fyrirtæki, sem haga sér ákaflega svínslega, fyrirtæki sem í raun og veru gætu skilað eðlilegum gjöldum fyrir þann hagnað sem verður til í þeim ríkjum þar sem þau eru með rekstur. Það hefur verið tekið á þessu hægt og bítandi víða um heim og er nauðsynlegt. Ég sem mikill alþjóðasinni tel að mikilvægt sé að það sé ekki misnotað frekar en margt annað. [Hnerrað í þingsal.] Drottinn blessi yður. Ég vona að þú sért ekki að fá svarta dauða. Ég tek það fram að það var þingmaður að hnerra.

Ég held að það verði alltaf að vera þannig, bæði með þess háttar lög sem og önnur, að þau verða að vera með ákveðinn sveigjanleika, þau þurfa að vera þannig að hægt sé að laga þau hratt og vel. Þeir sem eru með her lögfræðinga sem fljóta á milli landa til að finna glufur eru fljótir að koma auga á þær og þegar ljóst er að byrjað er að misnota slíkar glufur þarf að bregðast miklu hraðar við og laga lögin. Það hefur oft verið gagnrýnt að ekki skuli vera búið að taka á þessari þunnu eiginfjármögnun fyrr, af hverju það sé enn þá hola í lögunum. Nú er verið að reyna að taka á því, sem er gott.

Það er ýmislegt annað í þessum lögum, þau eru frekar viðamikil. Ég vil halda því til haga að mér finnst mjög mikilvægt að við sem þjóð komum okkur í það að búa til almennileg lög fyrir uppljóstrara, reyndar er búið að búa frumvarp til en það bíður inni í ráðuneyti eftir einhverjum til að flytja það. Ef það eru einhverjir sem við getum verið þakklát fyrir að þrýsta okkur áfram með þetta málefni eru það þeir aðilar sem hafa oft hætt lífi sínu til þess kom upplýsingum á framfæri fyrir almannahag. Oft eru þessir aðilar hundeltir um allan heim, samanber t.d. Snowden. Það er ekki síður mikilvægt þegar við horfum til uppruna þessara miklu breytinga sem nú eiga sér stað varðandi stórfelld skattsvik að við höfum líka séð miklar breytingar sem lúta að rétti almennings og blaðamanna til upplýsinga. Við höfum séð hversu mikilvægt það er að fjölmiðlar geti verið sjálfstæðir og farið í dýpri rannsóknarvinnu á flóknum málum til þess að almenningur geti myndað sér skoðanir byggðar á upplýsingum.

Í lokakafla þessarar ræðu langar mig enn og aftur að fara í skilgreiningu og aðeins betri útskýringu á því sem er alltaf áhyggjuefni þegar kemur að persónuupplýsingum. Það má eiginlega segja að allir þeir gagnagrunnar sem er alltaf verið að reyna að fá heimildir til þess að samkeyra séu orðnir að einhvers konar skrímslum. Nýverið var t.d. í grein farið ítarlega yfir gögn sem lúta að sjúkraskrám og lyfjum. Ég held að það sé alveg ofboðslega mikilvægt að tryggja að settir séu peningar í að passa upp á þessa gagnagrunna og sér í lagi gagnagrunna sem heyra undir beint undir stjórnvöld því að þetta er orðið að svo stórum kóngulóarvef að það er nánast ógerningur að hafa yfirsýn yfir hvaða upplýsinga er aflað, hvernig þessir gagnagrunnar eru samkeyrðir, hverjir hafa aðgang að þeim og svo mætti lengi telja. Í því efni má nefna gagnagrunna lögreglu, LÖKE, og ýmsar aðrar upplýsingaskrár. Ég fagna því að fara eigi í ítarlegu vinnu við þetta. Ég vona að áður en þessar heimildir verða að veruleika og komast til tollstjóra verði þeirri vinnu lokið sem ég veit að er í gangi í innanríkisráðuneytinu varðandi gagnagrunnana og það að fá yfirsýn og setja um þá almennilegan ramma. Ég skil vel að þeir sem vinna að ýmsum mikilvægum málum er lúta að vernd borgara landsins vilji fá eins mikið af upplýsingum og mögulegt er en höfum það í huga, og það hefur ítrekað komið fram, m.a. frá þeim sem hafa notast við gagnagrunna til að hafa uppi á hryðjuverkamönnum, að þeir nýtast ákaflega illa því að þeir sem ætla sér að viðhafa vafasama gjörninga gera sér grein fyrir því að það er betra að fara aðrar leiðir. Þeir eru alltaf einu skrefi á undan og það á ekki síður við þegar kemur að skattsvikum, rétt eins og með aðra vafasama iðju.

Ég hlakka til að fá að geta stutt þetta mál, þakka nefndinni og vona að þetta geri alvörugagn.