145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum og ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir prýðisræðu. Hv. þingmaður sat sem áheyrnarfulltrúi í nefndinni og vinnuframlag hennar í þessu mikla og mikilvæga máli og má segja kannski flókna var mikilsvert, flókna segi ég vegna þess að þetta tekur til breytinga á mörgum lögum eða lagabálkum, eins og tekjuskattslögum og virðisaukaskattslögum, opinberum gjöldum og tollalögum. Eins og hv. þingmaður kom inn á er þetta sér í lagi tengt tolleftirliti og tollkafla sem fjallar um upplýsingasöfnun og meðferð persónuupplýsinga og því sífellda mati sem þarf að fara fram á því hvort vegi meira almannahagsmunir og öryggi eða síðan meðferð persónuupplýsinga og persónuverndarsjónarmið þar að lútandi.

Hv. þingmaður kom vel inn á í ræðu sinni niðurstöðu við 17. gr. sem í grunninn fjallar um samkeyrslu skráa og 18. gr. um upplýsingaskipti á milli embætta og svo 21. gr. sem er meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga. Ég verð að hrósa hv. þingmanni fyrir að hafa verið mjög dugleg, sérstaklega í þeim kafla, að beita sér fyrir niðurstöðu í málinu.

Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér framtíðina? Hún kom inn á þá vinnu sem er í innanríkisráðuneytinu, en hvernig sér hv. þingmaður þetta gagnvart t.d. tollyfirvöldum og öðrum yfirvöldum með að skoða þetta í einhverju heildarsamhengi?