145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[16:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla alls ekki að lengja þessa umræðu. Við þekkjum öll ástæðu þess að frumvarpið hefur verið lagt fram, en það voru upplýsingar sem komu fram í apríl og maí um eignir Íslendinga í skattaskjólum og möguleg undanskot frá skatti; að taka þyrfti á þessu.

Það er ánægjulegt að á þessu hefur verið tekið. Strax í vor var lagt fram frumvarp hér í þinginu um þetta efni. Það breyttist verulega í störfum nefndarinnar og sérstaklega með því að mjög ítarlegar tillögur komu frá ráðuneytinu og undirstofnunum þess í vor sem unnið var með í sumar. Síðan hefur verið unnið mjög ítarlega. Þetta er mjög tæknilegt á margan hátt og mikil vinna fólgin í þessu. Ég held að það verði að hrósa hv. þm. Willum Þór Þórssyni sérstaklega fyrir framgöngu hans í þessu máli. Ég verð að segja eins og er að mér hefur ekki alltaf fundist hann öfundsverður, en hann hefur ekki látið deigan síga. Hér liggur frumvarpið fyrir með ítarlegum breytingartillögum frá nefndinni.

Mig langar að minnast á eitt mál sérstaklega, sem hér er komið inn á, þ.e. svokallaða þunna fjármögnun, en það er takmörkun á frádrætti vaxtagjalda. Við þekkjum það að í alþjóðlegum samsteypum hafa menn borgað vexti til móðurfélagsins í öðrum löndum, síðan er það dregið frá og þess vegna hafa þeir sloppið við að borga skatt hér á landi.

Nefndin leggur til að heimild til frádráttar vaxtagjalda og affalla vegna lánaviðskipta við tengda aðila verði takmörkuð við 30% af hagnaði skattaðila. Það samrýmist tillögum í skýrslu starfshóps um reglur þunnrar eiginfjármögnunar frá því í júní 2012. Það voru ýmsir sem lögðu til að miðað yrði við það.

Frá þessu eru samt sem áður einhverjar tæknilegar undantekningar. Í fyrsta lagi ef vaxtagjöld og afföll eru lægri en 100 milljónir og það er til að einfalda skattframkvæmd. Menn segja að tilefni geti orðið til að lækka þá fjárhæð þegar reynsla er komin á þetta. Síðan er bent á hér að vandamál sem tengist þunnri fjármögnun séu eðli máls samkvæmt hverfandi þegar bæði lántaki og lánveitandi eru skattskyldir hérlendis eða á sama stað, en þetta skiptir máli ef annað fyrirtækið er skattskylt hér og hitt í útlöndum. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu atriði.

Í öðru lagi er undantekning ef lánveitandi ber ótakmarkaða skattskyldu hérlendis. Í þriðja lagi ef eiginfjárhlutfall skattaðila er svipað eða hærra en eiginfjárhlutfall þeirrar samstæðu sem um ræðir og í fjórða lagi er undantekning vegna fjármálafyrirtækja og vátryggingafélaga. Talið er að sérstakar reglur um takmörkun á frádrætti þurfi til vegna slíkra fyrirtækja. En alþjóðleg reglusetning á því sviði er enn á umræðustigi, segir í nefndarálitinu.

Þetta er það sem ég vildi vekja sérstaka athygli á í þessu mikla verki sem tekur á mjög mörgum hlutum, er að mörgu leyti tæknilegt en skiptir afar miklu máli. Ég ætla aftur að þakka framsögumanni fyrir góða vinnu og ekki tefja þessa umræðu að öðru leyti.