145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Róbert Marshall um að náðst hafi mjög gott samstarf í nefndinni og góð samvinna og okkur hafi tekist að ná fram mörgum jákvæðum breytingum á samgönguáætlun. Fyrir það ber að þakka. Núna sjáum fyrir endann á þessari umræðu sem hefur verið ansi löng og um leið sjáum fyrir endann á vinnu sem hefur tekið ofsalega mikinn tíma frá umhverfis- og samgöngunefnd. Við höfum rætt samgöngumálin ítarlega og farið í gegnum þennan málaflokk á mjög vandvirkan hátt, en eins og flestir sem hafa fylgst með umræðunni vita hefur því miður ekki tekist hingað til að klára samgönguáætlun á þessu kjörtímabili. Það er mjög bagalegt. Það á samt sínar útskýringar og kannski þá helst að á undanförnum árum höfum við verið að horfa fram á batnandi hag þjóðarbúsins og við höfum séð landið rísa, en um leið og við sjáum landið rísa þurfum við að gæta að jöfnuði í ríkissjóði og við megum ekki fara of langt fram úr okkur. Því miður hafa samgöngumálin setið svolítið á hakanum. Ég held reyndar að flestir séu sammála um það í dag að við getum ekki beðið mikið lengur og þess vegna er mjög ánægjulegt að sjá að við höfum t.d. náð breiðri samstöðu um að bæta fjármuni verulega í aukið viðhald hringinn í kringum landið. Það held ég að séu mjög jákvæð skref.

Ég er líka ánægður með að við höfum náð að setja fjármuni í marga mikilvæga vegi, tengivegi, hringinn í kringum landið, ekki bara ferðamannavegi heldur líka vegi sem hafa þurft aukið fjármagn vegna slæms ásigkomulags. Við erum að sjá það núna að vegir sem hafa beðið jafnvel svo áratugum skiptir fá fjármagn núna og munu væntanlega klárast. Ég nefni þar fyrstan Hörgárdalsveg, vegur sem er ekki ekinn mikið af ferðamönnum, en þar eru tvær mjög hættulegar einbreiðar brýr og hafa íbúar kallað lengi eftir vegabótum. Þær eru loksins í höfn núna. Íbúar í Hörgárdal og Hörgársveit sem er í nágrenni Akureyrar ættu því að geta mjög vel við unað, en þessi vegarspotti hefur verið settur aftur fyrir ár eftir ár. Við sjáum einnig aukið framlag í Bárðardalsveg sem er svipaður vegur sem hefur verið ýtt aftur fyrir ár eftir ár og lengi beðið eftir. Hann er núna má segja mikill ferðamannavegur vegna þess að þar er ekki bara Goðafoss sem allir landsmenn þekkja, heldur líka Aldeyjarfoss og fleiri fallegar náttúruperlur sem ferðamenn eru að uppgötva núna. Þetta eru leyndar perlur. Þarna er líka leiðin upp á Sprengisand. Það er gott að geta sett fjármuni í svona vegi sem hafa því miður verið settir aftur fyrir ár eftir ár.

Ég verð líka að segja að það er mjög ánægjulegt að í fyrsta skipti eru settir fjármunir sem eru beinlínis ætlaðir til þess að lækka miðaverð á innanlandsflug, í fyrsta skipti sem fjármunir eru teknir sérstaklega til hliðar með það að markmiði að finna leiðir til þess að lækka innanlandsflugið. Við höfum séð það í gegnum tíðina að innanlandsflug er gríðarlega mikilvægt og það verður mikilvægara með hverju árinu sem líður. Þetta eru almenningssamgöngur okkar. Við búum í stóru og víðfeðmu landi og það hljóta að vera einhver mestu lífsgæði sem hugsast geta að geta flogið nánast beint frá heimasvæði sínu til Reykjavíkur, sem er miðstöð þjónustu, heilbrigðisstofnana og menntunar, höfuðborgin okkar, og að hægt sé að gera það á sem ódýrastan hátt. Miðaverð núna er allt of dýrt.

Ég hef bent ítrekað á að það gangi ekki að dýrara sé að fljúga innan lands en að fljúga til fjarlægari landa. Við ætlum því að setja þessa fjármuni þetta og bendum á í áliti að fargjöld innan lands hafi hækkað um fjórðung síðustu 12 mánuði, en flugfargjöld í millilandaflugi hafi aðeins hækkað um 6% á sama tíma. Við viljum að kannað verði hvort ekki sé raunhæft að bjóða allt innanlandsflugið út og flugvallagjöld verði færð að raunkostnaði, og hvort eigi að gera það í lengri tíma samningi við Isavia en nú er gert, eða hvort breyta eigi samningnum þannig að í honum verði kveðið á um rekstur og viðhald flugvalla en ekki rekstur eins og nú er talað um.

Við teljum að hægt sé t.d. að skoða hina svokölluðu skosku leið þar sem flugfargjöld eru niðurgreidd til þeirra sem búa á afskekktum stöðum. Þetta gæti kannski verið einhver stærsti liður í að styrkja byggðir landsins, sérstaklega þær sem hafa átt undir högg að sækja.

Það er gott að geta sagt líka frá því að við erum í fyrsta sinn núna að setja flughlaðið á Akureyrarflugvelli inn á samgönguáætlun. Það flughlað hefur verið olnbogabarn vegna þess að Isavia hefur ekki treyst sér til, á grunni þess að það er ekki inni á samgönguáætlun, að setja fjármuni í það. Við höfum því þurft að setja fjármagn á fjárlögum hvers árs til að tryggja flutning á efninu. Nú liggur fyrir að flughlaðið er komið inn á samgönguáætlun og ég get ekki betur séð en það góða samgöngumannvirki verði að veruleika á næstu árum, a.m.k. leggjum við það til í samgönguáætlun.

Einnig hefur verið kallað mjög eftir Dettifossvegi, sem er vegur sem liggur meðfram Jökulsárgljúfri. Þar eru margar af fallegustu náttúruperlum landsins en aðgengi að þeim hefur verið mjög erfitt í gegnum tíðina. Við höfum sett mikla fjármuni á undanförnum árum í að byggja upp veginn. Hann er tilbúinn að Dettifossi og upp að Hljóðaklettum en vantað hefur upp á þá tengingu að mynda þennan mikilvæga hring, hinn svokallaða Demantshring, þar sem fólk getur farið frá Akureyri og keyrt yfir í Mývatnssveit og yfir að Jökulsárgljúfrum, niður með Dettifossi og þaðan niður í Kelduhverfi og svo þaðan til Húsavíkur. Íbúar á svæðinu hafa talað um að þetta sé kannski einhver mikilvægasti liður í að efla ferðaþjónustu á því svæði. Við setjum 1,5 milljarða í að klára þetta á næstu tveimur árum sem er gríðarlega mikilvægt.

Svo vil ég nefna hafnirnar. Við setjum mikla fjármuni í hafnir í Norðausturkjördæmi, Dalvík og Siglufjörð. Samherji ætlar að byggja þar upp og ætlar að byggja upp til framtíðar. Það er eðlilegt að ríkisvaldið komi að því að styrkja höfnina og gera hana þannig úr garði að hægt verði að landa þar í miklum mæli, auk þess sem við setjum mikið í Siglufjörð, ekki bara hafnirnar þar, heldur líka flugbrautina. Við erum að færa veginn upp í skíðasvæðið sem er á snjóflóðasvæði. Allt eru þetta mjög góð og mikilvæg verkefni.

Á þeim stutta tíma sem ég hef ætla ég ekki að reifa öll þau góðu verkefni sem eru kannski annars staðar á landinu, ég gerði það í minni fyrri ræðu, en vil þó fagna því að við setjum fjármuni í Snæfellsnesið, Skógarstrandarveginn, við bætum þar í á árinu 2017 og 2018 250 milljónum. Við setjum líka fjármuni, um 120 milljónir á árinu 2018, í svokallaðan Örlygshafnarveg um Hvallátur. Það er vegur sem liggur að Látrabjargi og heimamenn hafa bent á að er í mjög slæmu ásigkomulagi. Við erum líka að setja 50 milljónir í undirbúning og útboð á Axarvegi á Austurlandi sem hefur verið mikið kallað eftir. Nú erum við að tryggja að hægt verði að fara í uppbyggingu á Öxi um leið og framkvæmdum við Berufjarðarbotn er lokið. Gríðarlega mikilvægur vegur og gott að geta sagt að við séum að koma honum í höfn.

Það er margt sem ég hef ekki nefnt, en við erum t.d. líka að setja inn breytingu varðandi Húsavíkurhöfn. Þar er lagt til að framlögin hækki um 348 millj. kr. Þetta er eitthvað sem hafði fallið niður í fjáraukalögum fyrir árið 2014, en á það var bent að tryggja þyrfti þetta og gott að það skuli hafa orðið að veruleika.

Ég vil að lokum þakka innanríkisráðherra. Hún hefur fengið á baukinn í umræðunni, en ég veit fyrir víst að hún hefur barist fyrir auknu fjármagni í þennan málaflokk. Ég þakka nefndinni allri, bæði meiri hluta og minni hluta, fyrir þolinmæði og fyrir þann þrýsting sem nefndin í heild sinni hefur sett á alla þá sem hafa eitthvað um samgöngumál að segja, og fyrir óbilandi áhuga á málaflokknum. Samstaða hefur verið um að reyna með öllum ráðum að auka framlögin og skilningur hefur verið á því að bæta þurfi í málaflokkinn. Umræðan hefur verið málefnaleg og hún hefur verið á háu plani að mínu mati.

Ég þarf og vil sérstaklega þakka félaga mínum í Norðausturkjördæmi, Kristjáni L. Möller, fyrir góð orð í minn garð. Hann hrósaði mér sérstaklega hér og mér þótti vænt um að heyra það frá stjórnarandstöðuþingmanni. Ég tel okkur frekar hafa verið samherja í þessum málaflokki en andstæðinga og vil sérstaklega nefna það að við erum að setja fjármuni núna í rannsóknir á frumhönnun jarðganga á milli Siglufjarðar og Fljóta. Við vorum tveir á sérstakri breytingartillögu þar að lútandi. Ég tel að þetta sé fyrsta skrefið í að þau jarðgöng geti orðið að veruleika. Við börðumst saman fyrir Héðinsfjarðargöngum og Vaðlaheiðargöngum ásamt reyndar öðrum þingmönnum Norðausturkjördæmis. Vaðlaheiðargöng voru umdeild á sínum tíma og þingflokkar klofnuðu því miður í afstöðu sinni, en rannsóknir sýna að miklu meiri umferð verður um þau göng, þau verða mikilvægari en menn töldu áður og var samt gagnrýnt að þær spár væru ofreiknaðar og þarna mundi mikill kostnaður falla á ríkissjóð. Svo er ekki þótt verkið hafi kannski ekki gengið áfallalaust fyrir sig.

Ég vil sérstaklega þakka Sigurði Inga Jóhannssyni, núverandi forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins, fyrir áhuga hans á málaflokknum. Það varð gríðarlegur munur þegar hann kom inn í forsætisráðuneytið. Áhuginn og skilningurinn sem hann sýndi og sú barátta sem hann var til í að leggja af mörkum í ríkisstjórn fyrir því að við fengjum aukin framlög var nýbreytni. Hann sem landsbyggðarmaður sýndi mikinn skilning á því að bæta þyrfti verulega í þennan málaflokk. Þar áttum við, sem höfum lengi barist fyrir auknu fjármagni, vissulega hauk í horni og skýrir kannski það af hverju við erum að ná þessum gríðarlega árangri núna, að það að hann skyldi koma inn í þetta ráðuneyti hefur að sjálfsögðu mest um það að segja.

Að lokum vil ég segja eitt. Baráttan fyrir Reykjavíkurflugvelli mun halda áfram. Ég mun leggja mitt af mörkum í þeirri baráttu eins og áður, jafnvel þótt ég sé að hverfa af Alþingi og þetta sé væntanlega sú síðasta ræða sem ég mun halda. Það er ansi sérstakt, verð ég að segja, að halda hana hér fyrir tómum þingsal, en vil þó segja að margir hafa tekið þátt í þessari umræðu. Hún var á háu plani og var málefnaleg og vonandi verðum við sammála um að auka enn frekar til samgöngumála næstu ár og missiri.