145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það er ekki nema von að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson telji það glapræði að LÍN-málið komist ekki í gegn, hv. þingmaður hefur greinilega ekki kynnt sér það nógu vel. Þetta mál sem var í hv. allsherjar- og menntamálanefnd var þeim vanköntum háð að allir útreikningar sem voru í boði voru bundnir við einhverja galdra. Þarna var verið að blekkja þingheim með því að segja að 85% stúdenta kæmu betur út. Það var fengið út með því að gera ráð fyrir því að einstæð móðir með tvö börn á námslánum tæki sér einungis úr námslánakerfinu sem samsvarar 115 þús. kr. á mánuði og mundi þar af leiðandi minnka heildartekjur sínar um 190 þús. kr. á mánuði. Það voru forsendurnar sem gefnar voru í frumvarpinu. Að sama skapi var ekkert litið til þess að sumir nemendur þurfa að taka skólagjaldalán, eins og listnemar þurfa að gera. Ég er með dæmi um listnema sem fer í LHÍ þar sem önnin kostar 490 þús. kr. og síðan í mastersnám í tónsmíðum þar sem önnin kostar 796 þús. kr. Ef hann tæki fullt framfærslulán, sem er mjög eðlilegt, það er það sem nemendur gera núna, og skólagjaldalán væri afborgun hans á mánuði um 30 þús. kr. Það mundi tvöfaldast miðað við núverandi kerfi. Er það frábært? Þrátt fyrir að hann fái 65 þús. kr.?

Þetta frumvarp er mjög góð ástæða fyrir því að við stóðum upp og sögðum: Nei, þetta er ekki nógu gott. Þarna er verið að slíta ákveðinn jöfnuð, sjá til þess að þeir ríku fái styrk og komi skuldlausir úr námi, sjá til þess að stúdentar í foreldrahúsum geti komið skuldlausir úr námi á meðan þeir sem hafa börn á framfæri borga brúsann. Finnst hv. þingmanni það sanngjarnt? Nei, mér finnst það heldur ekki. Þar af leiðandi stóð ég gegn þessu frumvarpi og er mjög sátt við það.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna