145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að þingmenn tali skýrt í stórum hagsmunamálum. Það er með ólíkindum að hafa orðið vitni að því hvernig stjórnarandstaðan hefur lagst gegn mjög stórum hagsmunamálum alveg sérstaklega hér í lok þings. Það er mikilvægt að við færum ekki málflutning okkar í feluliti heldur tölum hreint út. Það má nefna að þau hafa verið að þvælast fyrir í jöfnun lífeyrisréttinda, einhverju mesta jafnréttismáli sem hefur verið borið upp á síðustu árum. Þau hafa verið að þvælast fyrir í kjarabótum fyrir þá sem lakast standa í samfélaginu. Þau hafa náð að stoppa úrræði Alþingis til þess að greiða fyrir verkefnum norður á Bakka. Þau eru að þvælast fyrir í máli sem snýr að þara- og þangvinnslu á Breiðafirði sem kallað er eftir af sveitarfélögum, m.a. vegna uppbyggingar á 30 til 40 manna vinnustað í Stykkishólmi. Þau eru að þvælast fyrir í námslánafrumvarpinu, breytingum á því, í rammaáætlun með tilheyrandi afleiðingum fyrir raforkuuppbyggingu á Vestfjörðum og raforkuafhendingu uppi á Skaga eða á Grundartanga. Þau hafa staðið hér gegn skattalækkunum.

Það er ágætt að kjósendur geri sér grein fyrri því hverjar áherslur þessara flokka eru í þeim fagurorðaflaumi sem frá þeim kemur um annað. Það er eiginlega alveg sama hvort maður er ungur, gamall, hvort maður er á vinnumarkaði eða er vinnuveitandi, hverra hagsmuna er verið að gæta í þessum málflutningi?

Virðulegur forseti. Mig langar að nefna aðeins þann stórkostlega árangur sem náðst hefur í nýsköpun í atvinnulífinu á þessu kjörtímabili undir forustu hæstv. iðnaðarráðherra. Við höfum breytt skattalögum og einfölduðum regluverk í kringum nýsköpun. Við höfum aukið framlög í Tækniþróunarsjóð á þessu ári um 975 milljónir þar sem framlögin eru komin í 2,5 milljarða. Það hefur orðið gjörbylting á kjörtímabilinu þegar kemur að áherslum í atvinnumálum. Svo er því stöðugt haldið fram í einhverri umræðu að stjórnarflokkarnir tveir standi fyrir stóriðjustefnu, sem er alrangt. (Forseti hringir.) Það birtist í öllum okkar gögnum, öllum okkar vinnubrögðum og hvað skýrast í þeim miklu áherslum (Forseti hringir.) sem lagðar hafa verið á að efla nýsköpun í atvinnulífinu á þessu kjörtímabili.


Tengd mál