145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri hér að umtalsefni þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á hámarki greiðslna í fæðingarorlofi. Ég vil í fyrsta lagi gera athugasemdir við það að ríkisstjórnin, eftir að hafa ekki látið hámarksfjárhæðina fylgja verðþróun þetta kjörtímabil, fari ekki lengra en nú í 500.000 kr., sem dugar ekki til að ná 80% af meðallaunum sem hámarksfjárhæðin náði þó eftir niðurskurðinn sem var því miður óhjákvæmilegur árið 2009. Þessi ríkisstjórn hefur skorið meira niður við hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi en nokkru sinni fyrr í sögunni. Það er bara orðin staðreynd.

Það sem er enn sárara að horfa á er að menn skuli ákveða með ívilnandi aðgerð af þessum toga að binda hana við tiltekna dagsetningu, nánar tiltekið 15. október. Konur sem eru í þeirri aðstöðu að eiga börn aðeins fyrr missa þá af hækkuninni og foreldrar sem eru svo „heppnir“ að mæður ganga með fram yfir detta í lukkupottinn. Hvaða rugl er þetta? Hvaða rök eru fyrir því, þegar um ívilnandi aðgerð er að ræða, og allir eru sammála um að rúm sé í ríkiskassanum fyrir hækkun skuli svona fáránlegar dagsetningar vera látnar ráða? Hvers eiga þeir að gjalda sem eignuðust börn fyrir mánuði? Þetta er svo fáránlegt sem hugsast getur. Það eru engin rök fyrir þessu. Og það er engin nauðsyn til að gera þetta svona.

Það er algjörlega fráleitt að menn noti ekki tækifærið og láti alla þá sem eru nú í fæðingarorlofi eða eiga von á barni njóta þessarar ívilnandi aðgerðar. Það er hvort eð er ekki einu sinni verið að fara með hámarksgreiðslurnar upp í það sem þær voru í mesta niðurskurðinum rétt eftir hrun.


Efnisorð er vísa í ræðuna