145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

kveðjuorð.

[11:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta er væntanlega í síðasta skipti sem ég tek til máls undir þessum lið að sinni. Mig langar þess vegna að færa forseta bestu þakkir fyrir góð kynni og gott samstarf á þeim árum sem liðin eru frá því að ég kom inn á þing. Bæði persónuleg og fagleg samskipti hafa verið einkar ánægjuleg. Það hefur verið mér mikil gæfa, ungum og óreyndum þingmanni, að hafa átt samstarf við jafn mikinn reynslubolta og hæstv. forseti er. Ég er stórum ríkari eftir þessi kynni.

Ég vil líka nota tækifærið og þakka sitjandi varaforsetum þessa kjörtímabils fyrir gott samstarf og góða samvinnu. Ég þakka alþingismönnum öllum fyrir góða viðkynningu og vil einnig þakka starfsmönnum Alþingis sem eru hér okkur til liðveislu á hverjum einasta degi með bros á vör. Ekki síst þakka ég barnapíunum okkar sem við forsetarnir höfum okkur til aðstoðar til að fundir Alþingis megi ganga skammlaust undir okkar stjórn.

Mest af öllu þakka ég þó því fólki, þeim þúsundum, sem kaus mig til starfa á Alþingi á sínum tíma og þakka því það traust sem það sýndi mér á sínum tíma. Ég vona að mér hafi tekist með einhverjum hætti að standa undir því trausti sem mér var sýnt. Ég óska alþingismönnum öllum farsældar og þeirra fjölskyldum, að sjálfsögðu einnig forseta. Ég vona að þeir alþingismenn sem hingað munu rata inn aftur og þeir sem koma inn nýir megi eiga farsæl störf fyrir land og þjóð.

Mig langar í blálokin að lesa lítið ljóðbrot eftir Einar Benediktsson skáld. Það er lokaerindi ljóðsins Stefjahreimur og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Mitt verk er, þá ég fell og fer,

eitt fræ, mitt land, í duft þitt grafið;

mín söngvabrot, sem býð ég þér,

eitt blað í ljóðasveig þinn vafið;

en innsta hræring hugar míns,

hún hverfa skal til upphafs síns,

sem báran — endurheimt í hafið.