145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:16]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er ekki par sátt við að mér séu gerðar upp skoðanir hér. Bakkamálið er gríðarlega flókið mál. Ég var nú búin að skrá mig í ræðu um málið, svo var það tekið af dagskrá og verður ekkert afgreitt á þessu þingi. Hv. þm. Jón Gunnarsson og aðrir þingmenn vita ekkert um hvernig ég hefði greitt atkvæði í því máli. Ég hef ekki enn þá komist í ræðu.

Það sama á við um lífeyrissjóðsmálið. Það er hreint með ólíkindum að heyra því haldið fram hér að stjórnarandstaðan hafi staðið í vegi fyrir því. Ég held næstum því að stjórnarandstaðan, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason kom inn á, í fjárlaganefnd hafi verið jafnvel meira áfram um að klára það mál en fulltrúar meiri hlutans. (Gripið fram í: Nei.) Allt að því. (Gripið fram í: Nei.) Við hvöttum til þess að haldinn yrði fundur með fjármálaráðuneytinu. Við áttum samtöl hér á göngunum. Að halda því fram að stjórnarandstaðan hafi staðið í vegi fyrir því er alls ekki rétt. Ég held að þetta hafi verið mál sem næstum allir flokkar voru áfram um að klára. Það eru stjórnvöld sem ákváðu að draga það til baka. Hugsanlega var það rétt mat. (Forseti hringir.) Ég skal ekki um það segja. En ég vona að næsta ríkisstjórn muni klára það mál. Það mun ekki standa á Bjartri framtíð að hjálpa til í því.