145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það var þetta sem ég ræddi um í ræðu minni áðan, um feluliti fagurgalanna. Hér koma þau núna og bera af sér að stjórnarandstaðan hafi átt þátt í að tefja störf þingsins og þvælast fyrir í mjög merkilegum og mikilvægum málum fyrir íslenskt samfélag. Ég taldi upp nokkur mál áðan; kjarabætur fyrir þá sem lakast standa, þar hefur fólk þvælst fyrir; í Bakkamálinu, augljóslega. Auðvitað er komin upp ný staða eftir að úrskurðarnefndin kvað upp sína niðurstöðu þar en ef þingið hefði sameinast um að klára málið væri allt komið á fullt skrið fyrir norðan. Það skrifast ekki á þessa ríkisstjórnarflokka heldur á stjórnarandstöðuna sem þvælst hefur fyrir í því máli. Það voru sérstaklega fulltrúar Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar í nefndinni sem tóku þátt í því starfi, þannig að þetta stendur eftir. LÍN-málið hvet ég til að verði ítarlega rætt hérna. Það er gríðarlega mikilvægt mál. Stór hluti nemenda fylgist með því máli og leggur mikla áherslu á að því verði lokið. Ég geri þá kröfu sem alþingismaður að (Forseti hringir.) það verði rætt ítarlega og gefinn í það góður tími. Ég sætti mig ekki við eitthvert málamyndasamkomulag í þeim efnum. Ég ítreka síðan málið um þang og þara í Breiðafirði, sem skiptir mjög miklu máli fyrir byggðirnar við Breiðafjörð og ætla að nýta þessa merku náttúruauðlind.