145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að allir sem fylgst hafa með þingstörfum geti ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að stjórnarandstaðan hafi reynt að koma í veg fyrir að mál yrðu rædd og kláruð. Ég held að það væri afskaplega sérkennilegt að reyna að halda einhverju öðru fram. Hv. þm. Jón Gunnarsson þekkir þetta Bakkamál inn og út og fór ágætlega yfir það, og nefndi hér fleiri mál. En ég vona, vegna þess að það er svo mikilvægt að við klárum og nýtum þann glugga sem við höfum þegar kemur að jöfnun lífeyrisréttinda á milli landsmanna, að úr því að það tekst ekki núna klárum við það þá fyrir áramót. Við höfum ekki lengri tíma. Ég ætla ekki að fara að karpa við einn eða neinn um hverjum sé um að kenna. Það er fullkomið aukaatriði. En ég er ánægður að heyra að hér komi hv. þingmenn úr öðrum flokkum og hv. stjórnarandstöðu og segi að þeir vilji gera það, því að við verðum að gera það. Hins vegar er það hárrétt hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni (Forseti hringir.) að það er hálfsérkennilegt í besta falli að koma hér upp og segjast ekki hafa verið að þvælast fyrir málum. Það stenst enga skoðun.