145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það voru tveir fjármálaráðherrar í síðustu ríkisstjórn sem byrjuðu lífeyrismálið. Verið hefur fullur áhugi af hálfu stjórnarandstöðunnar á að ljúka því máli. Hins vegar kom í ljós að undirbúningur ríkisstjórnarinnar var með slíkum eindæmum að ekki var fyrr búið að leggja málið fram en embættismenn og fólk úr stjórnarmeirihlutanum eða sem honum tengdist gaf yfirlýsingar sem urðu til þess að stór starfsmannafélög hrukku í kút og hrukku frá stuðningi við málið. Það þurfti með öðrum orðum að vinna það miklu betur vegna fádæma klúðurs stjórnarmeirihlutans.

Að því er varðar Bakka var það fyrri ríkisstjórn sem hóf það mál en það var þessi ríkisstjórn sem klúðraði því máli núna á síðasta degi þingsins, brotlenti Bakka. Það er með engum hætti hægt að kenna stjórnarandstöðunni um það. Það var ákvörðun sem tekin var fyrr í morgun af hæstv. ríkisstjórn. Það er þangað sem hv. þm. Jón Gunnarsson á að leita með sína harma, ekkert annað. Það voru hans ráðherrar sem tóku (Forseti hringir.) ákvörðunina um að fresta Bakka, ekki stjórnarandstaðan.