145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að ganga svo langt að kenna hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur um allt sem misfarist hefur hér á þessu kjörtímabili. (Gripið fram í: Flest.) En ég ætla heldur ekki að hrósa henni fyrir allt það sem vel hefur verið gert á þessu kjörtímabili, sem auðvitað er miklu meira. Ég verð hins vegar að gera athugasemdir við þau orð að stjórnarandstaðan eða hluti hennar að minnsta kosti hafi ekki reynt allt sem hægt var hér á undanförnum vikum til að leggja stein í götu þessa Bakkamáls. Auðvitað hefur stjórnarandstaðan ekki verið samstiga í því en ákveðinn hluti stjórnarandstöðunnar hefur ólmast í því máli eins og menn hafa tekið eftir bæði í síðustu viku og vikunni þar á undan.