145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[11:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að segja að við í Vinstri grænum styðjum þetta mál, teljum jákvæð skref þar tekin í baráttu gegn skattsvikum, teljum þær breytingar sem hafa verið gerðar í meðförum hv. efnahags- og viðskiptanefndar til bóta á þessu máli. Þetta er þó aðeins jákvætt skref, ég tel að margt fleira eigi eftir að vinna í þessum málum á næstunni. En ég vil fagna þeirri góðu samstöðu sem hefur náðst um þau skref sem er verið að taka. Sérstaklega vil ég nefna ný ákvæði um þunna eiginfjármögnun sem koma inn í þetta frumvarp núna og við greiðum atkvæði um á eftir. Þau eru í samræmi við frumvarp sem ég hef lagt ítrekað fram á þessu kjörtímabili, allt frá árinu 2013, og nú erum við að fara að greiða atkvæði um að þau komi inn í þetta frumvarp. Ég fagna því sérstaklega ef Alþingi nær samstöðu um að taka á þessu máli, þ.e. lántökum milli skattalögsaga til þess að forðast að greiða skatt af hagnaði. Ég held að það sé mikið þjóðþrifamál.