145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[11:38]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Píratar styðja þetta skref heils hugar og má segja að stefna okkar varðandi þunna eiginfjármögnun sé að ná fótfestu í lagasetningu, sem er mjög ánægjulegt. Fyrst við erum að fjalla um leiðir til að hemja skattundanskot í skattaskjóli langar mig að segja að við fengum svo sannarlega mikla hvatningu til að spýta í lófana þegar hér varð stærsti gagnaleki sögunnar, sem átti sér stað fyrir allnokkru, og ber að þakka þeim uppljóstrara sem aðstoðaði okkur við að vera upplýst um mikilvægi þess að tryggja að eitthvað yrði gert í þessu lagalega. Ég vil líka þakka nefndinni kærlega fyrir að bregðast við ábendingum um 17., 18. og 21. gr. í frumvarpinu en þar átti að veita tollyfirvöldum víðtækar heimildir til að samtengja gagnagrunna og fá gríðarlega mikið aðgengi að upplýsingum án þess að vandlega væri metið (Forseti hringir.) hvort þörf væri á því.