145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[11:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það, hér er eitt gott sem hefur komið út úr Panama-lekanum, við blásum til sóknar í viðureign við skattundanskot, skattsvik. Ég fagna því líka að það fór úr nefndaráliti dálítið umdeilanlegur kafli sem hefði falið tollstjóra, tollyfirvöldum, einhvers konar ígildi forvirkra rannsóknarheimilda. Það var samstaða í nefndinni um að taka það út. Ég vil hvetja þá sem taka við stjórnartaumunum eftir kosningar til að nýta nú þau tól sem þeim eru færð í hendur með þessu frumvarpi til að taka af festu á skattundanskotum, skattsvikum. Þetta er einfaldlega samfélagsleg meinsemd. Við sjáum fyrir algerlega opnum tjöldum í dagsbirtu að alþjóðleg stórfyrirtæki nota þunna eiginfjármögnun til að skjóta eðlilegum sköttum úr landi, skuldsetja sig óhóflega. Ég er þeirrar skoðunar að það sem við erum að smíða í þessu frumvarpi eigi að nýtast til að taka á þeim undanskotum og þau fyrirtæki séu ekki undanþegin því einhvern veginn varanlega að borga hér eðlilegan skatt.