145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir þetta mjög fróðleg svör frá hv. þingmanni. Það hefur ekkert komið fram í nefndinni um það að efnisleg rök eða skynsamleg rök séu að baki því að binda opinbera fyrirgreiðslu við tiltekið lánaform. Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir það alveg grafalvarlegt mál ef menn ætla á síðustu metrum þingstarfa að lauma hér inn breytingum sem hafa þau áhrif að auðvelda bönkum að beita venjulegt fólk á markaði ofbeldi með einhliða vaxtaákvörðunum og koma í veg fyrir að fólk sem kýs að verja sig gegn þessum ákvörðunum bankanna með því að taka löng óverðtryggð lán njóti jafnstöðu á við þá sem ofurselja sig valdi bankanna. Ég hlýt að spyrja: Hvers vegna telur hv. þingmaður að meiri hluti nefndarinnar hafi verið að ganga fram með þessum hætti til þess einfaldlega að gera fólk ofurselt einhliða vaxtaákvörðunum banka og koma í veg fyrir að fólk njóti jafnstöðu í opinberum stuðningi? Við borgum ekki bara vaxtabætur til þeirra sem taka óverðtryggð lán. Við borgum vaxtabætur óháð lánsformi. Það er mjög stór ákvörðun. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann hvernig hann geti látið það virka og hvort hann telji að það geti yfir höfuð farið saman við stefnu hans flokks sem treystir sér ekki einu sinni til að leggja skatt á sykur en ætlar síðan að fara að ákveða það hvernig lán fólk megi taka. Er það í alvöru boðlegt að fólk sé skikkað gegn vilja sínum í óverðtryggð lán? Því að það hefur sýnt sig síðasta árið að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem taka lán núna, ný íbúðalán, þegar fólk hefur val um hvort tveggja, þá tekur fólk verðtryggð lán. Er þetta fólk allt fífl? Er það afstaða Sjálfstæðisflokksins að þetta séu allt hálfvitar?