145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:15]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir andsvarið. Ég ætla ekki að rökræða um hans ágæta tilgang með þessari breytingartillögu sem snýr að því að hvetja til sparnaðar óháð lánsformi. Það er ekkert hægt að rengja þau sjónarmið, þau eiga fullan rétt á sér. En eftir yfirlegu og skoðun met ég það svo að sá tilgangur frumvarpsins, eins og það er lagt fram af ríkisstjórninni, að hvetja til sparnaðar og hraðari eignamyndunar í eigin húsnæði — að þessi breytingartillaga hv. þingmanns muni eðlisbreyta málinu. Það er mat á áhrifum í frumvarpinu á ríki og sveitarfélög. Fram þyrfti að fara endurskoðað mat á því. Ég met það svo að við þurfum að bregðast við þessu með þessum hætti.