145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bara ekki rétt hjá hv. þingmanni. Hann forðast að svara spurningunni sem ég spurði hér skýrt áðan. Eins og hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason hefur bent á er hægt að greiða hraðar inn á verðtryggð lán. Af hverju er þá ekki hægt að binda stuðninginn við hraðari niðurgreiðslu lána, ef það er markmið ríkisstjórnarinnar?

Það sem mér heyrist hins vegar hv. þingmaður vera að segja er að hann sé bara yfir höfuð á móti verðtryggðum lánum og Framsóknarflokkurinn sé á móti þeim, að það sé bara vont mál að menn taki verðtryggð lán. Þar með er hann að segja að allt það fólk sem með upplýstum hætti hefur tekið lán síðustu tvö ár í yfirgnæfandi meiri hluta verðtryggð, sé kjánar. Hann er þá líka að segja okkur að það sé réttlætanlegt að veita ríkisstuðning til þess að pína fólk til að taka lán á hærri vöxtum af bönkum en það þyrfti ella að gera.

Ég spyr hv. þingmann: Ræddi nefndin hvernig það kemur út gagnvart ríkisstyrkjareglum evrópska efnahagssvæðisins? Verið er að veita bönkum ríkisstyrk ef ríkið ætlar að niðurgreiða dýrustu lán banka. Verið er að auðvelda bönkum að rukka fólk um háa vexti. Verið er að mismuna framleiðsluvöru. Þarna er verið að veita bönkum á markaði betri vígstöðu, til dæmis með því að þeir geta veitt óverðtryggð lán, en Íbúðalánasjóði sem bara getur veitt verðtryggð lán. Hvar er umfjöllun nefndarinnar um ríkisstyrkjavinkilinn í þessum málum?

Virðulegi forseti. Þetta eru skýrar spurningar og ég vil skýr svör. Ef markmiðið er niðurgreiðsla lána, af hverju er það ekki með sama hætti ef fólk greiðir jafn hratt niður verðtryggð lán og óverðtryggð? Af hverju er þessi mismunun á framleiðsluvöru? Og í annan stað: Með hvaða rökum getur hv. þingmaður sagt að hann hafi meira vit á því hvað fólki sé fyrir bestu á frjálsum lánamarkaði en fólk sjálft hefur tekið ákvarðanir um undanfarin ár? Í þriðja lagi: Getur hann rökstutt að það sé betra að taka dýrari lán þar sem óverðtryggð lán hafa reynst (Forseti hringir.) dýrari en verðtryggð undanfarin ár?