145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:51]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Þarna er um að ræða mál þar sem augljós stefna ríkisstjórnarinnar um að nýta sameiginlega sjóði skattgreiðenda til að mismuna ólíkum tekjuhópum skín í gegn. Niðurstaðan verður sú að þeir tekjuhærri fá hærri skattafslátt en hinir tekjulægri og þar með hærra hlutfall af opinberu fé í húsnæðisstuðning. Þetta er ekki fyrsta málið þar sem svo háttar til að mismunun og ójöfnuður í samfélaginu eykst. Hér er um að ræða illa grundað frumvarp sem hefur fengið gagnrýni úr mjög mörgum áttum. Hér er gagnrýnt að ekki sé tekið á raunverulegum vanda á húsnæðismarkaði. Þingflokkur VG leggst gegn málinu.