145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[12:55]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og ég hef lýst áður hefur Björt framtíð verið opin fyrir því að hanna leiðir fyrir fólk til að nota þetta sparnaðarform, viðbótarlífeyrissparnaðinn, í mismunandi tegundir sparnaðar. Hér er sú grundvallarhugsun fyrir hendi. Hins vegar eru þeir annmarkar á þessu frumvarpi að þetta úrræði gagnast fyrst og fremst þeim sem mætti halda fram að þyrftu enga sérstaka aðstoð frá ríkinu til að koma sér þaki yfir höfuðið og gagnast mjög illa, ef nokkuð, þeim sem hafa litlar tekjur og eiga í raunverulegum vandræðum með að koma sér þaki yfir höfuðið. Þess vegna er þetta frumvarp gagnslaust. Þess vegna getum við ekki stutt það. Þess vegna erum við með hundshaus í þessu máli sem við sýnum með gula takkanum. Ef það kæmu hins vegar einhverjar aðrar aðgerðir sem mundu til viðbótar við þessar hjálpa fólki að kaupa sína fyrstu íbúð, sem væru sérstaklega hannaðar til að mæta þeim sem fyrirsjáanlega hafa litlar tekjur, þá mundi málið kannski horfa öðruvísi við. En þannig er það ekki svo að við erum áfram á gulu í þessu og líka varðandi þær breytingartillögur sem hafa verið til umræðu.