145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[13:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og vekja athygli sérstaklega á einum lið í því frumvarpi sem hér er til afgreiðslu. Það er undir liðnum Ýmislegt, undir málefnasviði 2, mennta- og menningarmálaráðuneyti. Þar er um að ræða 50 millj. kr. framlag sem er ákveðið, verði þetta að lögum, að nota í máltækniverkefnið, þ.e. að undirbyggja það að taka næstu skref í þá átt að íslenskan verði nothæf í hinum nýja tækniheimi. Ég ætla að leyfa mér að spá því að af öllum þeim ágætu málum sem hér eru inni muni þetta einstaka mál, þó upphæðin sé ekki mjög há, hafa mest að gera og skipta mestu máli af þeim sem hér eru til umfjöllunar þegar til lengri tíma er horft, enda er sjálf íslenskan, tungan okkar, að veði.