145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu við frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum fyrir hönd minni hlutans í velferðarnefnd. Það er rétt að það komi fram að það erum við fulltrúar Samfylkingarinnar, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúi Bjartrar framtíðar, sem og áheyrnarfulltrúi Pírata, sem að þessu standa í sameiningu.

Það er mikilvægt að hafa í huga, þegar við ræðum almannatryggingar, að um er að ræða gríðarlega mikilvægt framfærslukerfi fyrir tugþúsundir Íslendinga. Breytingar á því þurfa að vera vel hugsaðar og unnar með greiningu að baki. Það hefur farið mikil vinna í þá kerfisbreytingu sem hér er verið að leggja til og í raun hefur þetta kerfi verið í endurskoðun í tæp tíu ár og svipaðar tillögur voru lagðar fram fyrir fjórum árum. Það eru því mikil vonbrigði að ekki hafi tekist á þessum fjórum árum að ná samkomulagi við hagsmunasamtök örorkulífeyrisþega þannig að sú kerfisbreyting sem hér er verið að gera fyrir greiðslur til ellilífeyrisþega eigi sér ekki jafnframt stað gagnvart örorkulífeyrisþegum og þeir sitji áfram eftir með 100% tekjuskerðingar á hluta af sínum greiðslum.

Það er líka um þetta mál að segja, þó að það hafi verið í vinnu eða verið í meðförum nefndar svo árum skiptir, að frumvarpið kom mjög seint hér inn í þingið. Fyrir utan það að það hafi ekki náð til örorkulífeyrisþega þá bætir það heldur í engu kjör þeirra lífeyrisþega sem lökust kjör hafa. Það er verulega ámælisvert. Upphaflega voru ekki lagðar til neinar kjarabætur til samræmis við það sem gerist á vinnumarkaði.

Það þarf svo sem ekki að koma á óvart því að þeir flokkar sem að þessu nefndaráliti standa, fjórir stjórnmálaflokkar hér í minni hluta á Alþingi, hafa sameiginlega margoft lagt fram tillögur um að greiðslur almannatrygginga til öryrkja og eldri borgara hækki til samræmis við kjarasamninga. Meiri hlutinn hér í þinginu, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa alltaf hafnað þessum breytingartillögum okkar; síðast hér í gær höfnuðu þau afturvirkum greiðslum úr almannatryggingakerfinu til 1. maí 2016, svo að kjör lífeyrisþega héldu í við kjör fólks á vinnumarkaði.

Eftir að frumvarpið hafði sætt mikilli gagnrýni varðandi þann þátt málsins sem lýtur að kjörum þeirra sem verst standa þá voru lagðar hér fram af hálfu meiri hlutans breytingartillögur um hækkun á greiðslunum og höfum við í minni hlutanum þegar mótað tillögur sem eru miklu réttlátari en þær sem meiri hlutinn er með og kynntum við þær á sérstökum blaðamannafundi í gær. Meiri hlutinn segir að með þessum tillögum sé verið að fylgja ákvæðum kjarasamninga um 280.000 kr. lágmarksgreiðslur árið 2017 og 300.000 kr. lágmarksgreiðslur árið 2018, en þegar betur er að gáð eru þessi loforð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ansi rýr í roðinu.

Ég ætla að fara hér yfir helsta muninn á tillögum okkar í minni hlutanum og meiri hlutans. Meiri hlutinn ætlar eins og í samræmi við forsendur fjárlaga að hækka greiðslur almannatrygginga um 7,1% þannig að þeir lífeyrisþegar sem njóta fullra greiðslna almannatrygginga og búa með öðrum fái 227.000 kr. á mánuði í staðinn fyrir 212.000 kr. En við leggjum til 13,4% hækkun þannig að þeir sem búa með öðrum, bæði öryrkjar og eldri borgarar, fái 241.000 kr. Það er tæplega 14.000 kr. munur á þessari hækkun, er það til þess að auka ekki bilið á milli þeirra sem búa einir og þeirra sem búa með öðrum.

Í tillögum okkar hækka líka greiðslur til örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega upp í 280.000 kr. á næsta ári og svo 300.000 kr. árið 2018, en sú hækkun felur í sér 13,4% hækkun á alla bótaflokka, þannig að við erum ekki að auka vægi þeirra bótaflokka í greiðslunum sem skerðast meira. Þetta er flókið því þetta er flókið kerfi, en í einföldu máli sagt leggjum við til að lífeyrisþegar í sambúð fái 14.000 kr. meira á mánuði en tillögur meiri hlutans kveða á um og við leggjum til að hækkuninni upp í 280.000 og 300.000 verði náð með miklu minni skerðingum. Því það er þannig að heimilisuppbótin sem ellilífeyrisþegar munu nú fá ofan á ellilífeyri ef þeir búa einir á að skerðast um 52,5% vegna annarra tekna. Það er hátt skerðingarhlutfall, en meiri hlutinn ætlar að hækka það með breytingartillögum sínum upp í 56,9%.

Nú er ég hér að þylja tölur og prósentur í flóknu kerfi. Það er kannski vandinn við þetta flókna kerfi að það er auðvelt fyrir þá sem ekki hafa jöfnuð að leiðarljósi í stjórnmálum að kasta ryki í augun á fólki með því að nefna bara tölur en gera ekki grein fyrir þeim skerðingum sem á móti koma. Það bið ég fólk að hafa hugfast, því að hér er um blekkingarleik hjá meiri hlutanum að ræða. Hér er líka verið að setja sérstakan sambúðarskatt á þá lífeyrisþega sem búa með öðrum.

Ég vil taka fram að eftir mikla gagnrýni á afnám frítekjumarka er í breytingartillögum meiri hlutans innleiðing á 25.000 kr. frítekjumarki á allar aðrar tekjur. Við teljum þetta skref í rétta átt og styðjum þá breytingartillögu.

Svo er hér í 2. gr. frumvarpsins verið að fjalla um hækkun á lífeyrisaldri, sveigjanlega töku lífeyris, möguleika til að taka hálfan lífeyri og breyttan aldur fyrir réttindaávinnslu í kerfinu. Þessar breytingar koma til vegna þess að eldri borgurum er að fjölga sem hlutfall af mannfjölda á Íslandi og svo er heilsufar landsmanna að batna.

Varðandi hækkun í 70 ár er tvennt sem við í minni hlutanum gagnrýnum. Annars vegar er það það að fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að hækkunin upp í 70 úr 67 árum á ellilífeyrisaldri kunni að vera vanhugsuð tillaga. Bent var á að eldra fólk standi höllum fæti á vinnumarkaði og það þurfi ansi hressilega viðhorfsbreytingu þar til þess að aukinn fjöldi launafólks endi ekki starfsævina á atvinnuleysisbótum og mun þessi hækkun ýta undir það, hækkun á ellilífeyrisaldri. Þá er líka bent á að nýgengi örorku eykst hröðum skrefum eftir 60 ára aldur; eðli málsins samkvæmt er líklegra að við töpum starfsgetu með aldrinum. Hér er gott dæmi um erfiðisvinnufólk, verkafólk af ýmsu tagi, iðnaðarmenn, ákveðnar stéttir, sjómenn og fólk sem er í þrifum; sjúkraliðar eru ein af þeim stéttum sem lenda á örorku vegna erfiðisvinnu og álags á líkamann. Bent er á að með þessari breytingu sé ófyrirséð hversu mikil aukning örorkulífeyrisþega verður á móti. Það er því alveg óljóst hvaða áhrif þessi hækkun hefur.

Svo er hitt, sem er nú ekki síður stórt vandamál, að Alþýðusamband Íslands bendir á að frumvarp um breytingar á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, sem byggir á samkomulagi um breytingu á lífeyrisréttindum, mun ekki fá afgreiðslu hér í þinginu. Þessi mál eru því í uppnámi og ASÍ leggst harðlega gegn því að verið sé að auka á muninn á lífeyrisaldri hjá opinberum starfsmönnum og fólki á almennum vinnumarkaði, en launafólk á almennum vinnumarkaði reiðir sig fremur á framfærslu í gegnum almannatryggingar en opinberir starfsmenn.

Við í minni hlutanum skiljum þá viðleitni að hækka töku ellilífeyrisaldurs, en í ljósi bæði skorts á greiningum á áhrif þess á stöðu fólks á vinnumarkaði sem og harðorðaðrar gagnrýni stærstu samtaka launafólks á almennum vinnumarkaði þá höfnum við því að óbreyttu að ellilífeyrisaldur verði hækkaður.

Þá komum við að sveigjanlegum starfslokum. Það á sannarlega að vera markmið að gefa fólki meira valfrelsi, að það geti farið fyrr á ellilífeyri með þá skerðingu til frambúðar, eða seinkað honum og fengið hærri lífeyri þegar lífeyristaka hefst eftir 67 ára aldur eða 70 ára aldur.

Jafnframt er lagt til að hægt sé að taka hálf réttindi, hálfan lífeyri, sem skerðist ekki vegna annarra tekna, en Tryggingastofnun bendir á ýmis vandkvæði við framkvæmd á því ákvæði og það sé óljóst hvernig hún eigi að fara fram og hver kostnaðurinn verði og hvaða hópum þetta nýtist einna helst. Við í minni hlutanum teljum að slíkur sveigjanleiki sé æskilegur og við eigum að stuðla að valfrelsi fólks sem vill vera lengur eða skemur á vinnumarkaði, að það geti ákveðið það sjálft, en við teljum að þessar breytingar eigi að gera í heildarsamhengi við breytingar á lífeyristökualdri og höfnum því þessum breytingum að svo stöddu.

Síðan er enn eitt atriðið úr 2. gr. frumvarpsins, hún fellur öll brott í tillögum okkar, en það er ávinnslutímabil fullra réttinda. Það eru í núgildandi lögum 40 almanaksár á tímabilinu 16 til 67 ára aldur sem viðkomandi verður að hafa búið hér á landi. Í frumvarpinu er lagt til að ávinnslutímabilið breytist í 18 til 70 ára aldur en verði áfram 40 ár, en engin rök eru gefin fyrir hækkuninni á þessum aldri úr 16 í 18 ár. Við öfluðum gagna í nefndinni og þar kemur fram að í flestum tilfellum hefst ávinnslualdurinn á Norðurlöndunum í 15 til 16 árum og við leggjum því til að þetta breytingarákvæði verði fellt brott.

Við styðjum breytingartillögu minni hlutans um að fella brott 11. gr. frumvarpsins. Það voru eindregnar óskir okkar í minni hlutanum að við gengjum ekki á réttindi lífeyrisþega sem sitja í fangelsum án þess að heildarskoðun á þeirra kerfi yrði fyrst gerð, því að það er mjög erfitt að fá upplýsingar um hvernig fangar eiga að framfleyta sér á meðan á afplánunartíma stendur. Aðstæður fanga eru mjög ólíkar og við teljum óheppilegt að rýra kjör ákveðins hóps verulega án þess að vita hvað tekur við hjá þeim einstaklingum. Við fögnum þessari breytingu og munum styðja hana.

Þá er gert ráð fyrir starfshópi til að útfæra og koma á fót tilraunaverkefni í samvinnu við eitt eða fleiri hjúkrunarheimili um nýtt fyrirkomulag og greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Með þessu ákvæði er verið að bregðast við ábendingum um breytt fyrirkomulag greiðslna lífeyrisþega fyrir dvöl á hjúkrunarheimilum og óánægju margra með núverandi fyrirkomulag. Við í minni hlutanum styðjum þessa tillögu, en við leggjum áherslu á búsetu- og þjónustuöryggi ellilífeyrisþega óháð fjárhagslegri stöðu þeirra.

Ég vil taka fram hér að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerir fyrirvara við þessa grein frumvarpsins og breytingartillögu meiri hlutans sem heimilar sveitarfélögum að innheimta þjónustugjöld. Fyrirvarinn lýtur að því að engin útfærsla liggur fyrir um möguleg áhrif aðstöðumunar vegna kjara. Breytingin kynni að valda því að sumir íbúar hjúkrunarheimila hafi ekki efni á mikilvægri þjónustu, auk þess sem áhrif slíkra breytinga á rekstrarform hjúkrunarheimila eru óljós. Þetta var fyrirvari fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Við styðjum frumvarpið að því gefnu að breytingartillögur okkar nái fram að ganga, eða leggjum það til. Flestar okkar breytingartillögur lúta að því að við höfnum hækkun á ellilífeyrisaldri, sveigjanlegri starfslokum, á þessum tímapunkti þó að við séum sammála markmiðinu, og breytingu á aldri ávinnslutímabils. Það eru nokkrar breytingar sem af þessu leiða. Síðan erum við með breytingartillögur um hækkun greiðslna, um 13,4% en ekki 7,2%, eins og meiri hlutinn leggur til, og við höfnum hækkun á skerðingum á heimilisuppbót til ellilífeyrisþega.

Undir þetta nefndarálit skrifa auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Steinunn Þóra Árnadóttir, Páll Valur Björnsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Áheyrnarfulltrúi Pírata í velferðarnefnd, hv. þm. Halldóra Mogensen, er samþykk áliti þessu.