145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við spurningu hv. þingmanns er auðvelt. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru að kasta ryki í augun á kjósendum og fara ódýrustu mögulegu leið til að ná markmiðinu um 280.000 kr. á mánuði. Með því að hækka þannig eru þau að setja sérstakan sambúðarskatt á þá sem búa með öðrum því að þeir njóta hlutfallslega ekki sömu hækkana og þeir sem búa einir. Með því að hækka heimilisuppbótina sérstaklega verða skerðingar vegna annarra tekna meiri og það er verið að auka skerðingarnar í þeirra breytingartillögum. Þetta er sýndarmennska. Þau geta þá sagt 280.000 kr. og 300.000 kr., en þurfa að greiða eins lítið og mögulegt er fyrir það úr ríkissjóði, því að skerðingarnar eru svo miklar á þessum flokki bóta. Þannig er nú það. Ég skil ekki að Framsóknarflokkurinn hafi viljað fara með Sjálfstæðisflokknum þessa leið sem eykur á ójöfnuð í íslensku samfélagi og mismunar lífeyrisþegum.