145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:02]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér loksins frumvarp um almannatryggingar. Maður veit ekki hvort maður á að gleðjast eða vera sorgmæddur þegar það kemur loksins fram. Sá sem hér stendur situr í velferðarnefnd og hefur tekið þátt í umræðum þar um þetta kerfi. Ég skal bara fúslega viðurkenna, þótt mér sé það ekki létt verk, að ég skil hvorki upp né niður í þessu kerfi. Ég held að ég sé ekki einn um það. Það eru ótrúlega margir sem skilja ekki þetta kerfi. Eftir því sem maður hlustar meira á þá sem þykjast, ekki þykjast heldur vita, og eiga að vita mest um þetta, þeim mun ruglaðri verður maður.

Það sem ég gleðst kannski yfir er að verið er að setja meiri peninga inn í þetta kerfi núna. Verið er að setja meiri peninga til eldri borgara og öryrkja. Það er hlutur sem við getum örugglega öll glaðst yfir þó að vissulega sé staðan sú að ekki eru allir í samfélaginu ánægðir. Það virðist ekki ríkja sátt um þetta frumvarp, sem er miður. Það er mjög miður. Eftir því sem ég kemst næst hefur farið fram í 11 ár vinna við að reyna að breyta, einfalda og laga þetta kerfi. Það eru um það bil þrjú kjörtímabil. Á þessu kjörtímabili og því síðasta er búið að halda vel á annað hundrað fundi í nefndum sem vinna að breytingunni. Samt gekk Öryrkjabandalagið út.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvernig maður á að höndla þetta. Afrakstur nefndarinnar þegar frumvarpið kom fyrst inn var sá að þeir sem verst standa í kerfinu fá enga bót. Ekki neina. Maður spyr: Hvað er í gangi, ef þetta er niðurstaðan eftir alla þessa vinnu? Niðurstaða nefndarinnar og allrar vinnunnar síðustu 11 ár er sú að þeir sem verst standa fá enga bót. (Félmrh.: Þetta er rangt.) Þetta er rangt, segir hæstv. félagsmálaráðherra. (Félmrh.: Þú veist betur.) Nei, ég veit ekki betur, þetta er bara staðan. Þeir áttu ekki að hækka um krónu sem verst standa. (Félmrh.: Rangt.) Er það rangt? Nei, það er nefnilega ekki rangt. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Af hverju kemurðu ekki bara í andsvar?) Þetta er nú bara upplifunin.

Ég sé að eldri borgarar skrifa í blöð og á bloggsíður þar sem þeim finnst illa að sér vegið, illa gert við þá. Ég veit það ekki. Allar breytingar, hvort sem það er 1%, 2%, 10% eða hvað sem er í þessu kerfi, þær bæta fleiri milljörðum inn í það. Þetta er alveg gríðarlega dýrt. Ég velti fyrir mér hvernig við eigum að höndla þetta og hvernig taka eigi á þessu. Ég hef ekki svörin við því. Ekki nema að við þurfum að taka verulega til í kerfinu og láta alla borga skatta til dæmis og fá meiri arð af auðlindum okkar og annað til þess að við getum rekið gott velferðarkerfi, en það hlýtur að vera markmið þjóðar eins og Íslendinga að búa þeim sem verst standa mannsæmandi líf og mannsæmandi lífskjör þannig að þeir geti lifað, farið til læknis, fundið sér eitthvað til afþreyingar. Það virðist ekki vera. Það dugir ekki til það sem þeim er boðið í dag.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta frumvarp. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fór yfir það, breytingartillögur okkar og annað. Og hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, framsögumaður málsins, fór yfir hlut þeirra í þessu máli. En ég held að það hljóti að vera markmið, og það er dálítið skrýtið að við þurfum að fara aftur í það á næsta kjörtímabili, að skipa sennilega nefndir til að vinna í almannatryggingakerfinu. Samt erum við búin að vera í 11 ár að vinna í þessu. En það hlýtur að vera að lífeyrir almannatrygginga eigi að miðast við neyslukönnun Hagstofunnar, eins og Björgvin Guðmundsson segir, sem hefur verið formaður Félags eldri borgara. Ég þekki hann ekki persónulega en hann lætur sig þessi mál miklu varða og segir á bloggsíðu sinni núna í vikunni, með leyfi forseta:

„Samkvæmt neyslukönnun Hagstofu Íslands nota einhleypingar til jafnaðar 321 þús. kr. á mánuði í útgjöld (meðaltalsútgjöld.) Það er án skatta. Það jafngildir 400 þús. kr. á mánuði fyrir skatta. Það er sambærileg tala og 246 þús. kr. á mánuði fyrir skatt, sem Tryggingastofnun greiðir einhleypum eldri borgurum og öryrkjum. Með öðrum orðum: Tryggingastofnun greiðir einhleypum eldri borgurum og öryrkjum 154 þús. kr. minna fyrir skatt á mánuði en nemur neyslukönnun Hagstofunnar.“

Það segir mér að töluvert mikið vantar upp á að við séum að bjóða fólki upp á mannsæmandi lífskjör. Ég veit sannarlega ekki hvernig við eigum að gera það, en ljóst er að við verðum að gera það einhvern veginn. Við getum ekki boðið nokkrum einasta manni upp á þetta, og nú er talað um að 4 þús. eldri borgarar búi við þessi kjör, þessi verstu kjör. Ég hef fengið símtöl frá mörgum eldri borgurum sem segja líf sitt í molum vegna þess að þeir geti ekki leyft sér að fá lyf eða greiða lækniskostnað. Það er ekki góður vitnisburður fyrir þjóð eins og okkur, að hér skuli ekki allir geta lifað með reisn út lífið. Ég held að það hljóti að vera markmið okkar, þeirra sem ætla að halda áfram hér á þingi og ná brautargengi og þeirra sem koma hingað inn, að laga þetta. Þannig að hér búi allir við mannsæmandi kjör, geti lifað sjálfstæðu lífi, eins og öryrkjar, eigi þak yfir höfuðið og geti lifað í sátt og samlyndi í samfélaginu.

Ljóst er að verið er að setja meiri peninga í þetta kerfi. Við eigum að gleðjast yfir því. Það er þó skref. Þetta er meingallað hænuskref, eða hænufet segir Ellert Schram, fyrrverandi þingmaður, sem hefur látið þessi mál sig miklu varða. Hann segir að þetta sé meingallað hænufet. Kannski er það rétt hjá honum. En ég veit ekki alveg hvernig maður muni greiða atkvæði með þessu, en ég held samt sem áður og vona að breytingartillögur okkar verði samþykktar, og það er ljóst að þetta fer í gegn. Það er bara kannski jákvætt. En þetta er ekki alveg það sem var lagt upp með í fyrstu, að einfalda kerfið og gera öllum kleift að lifa mannsæmandi lífi á Íslandi. Að því eigum við öll að stefna, bæði hvað varðar eldri borgara og öryrkja. Þær skerðingar sem fólk verður fyrir meðan það reynir að vinna — maður einn hafði samband við mig og fleiri þingmenn og sendi okkur bréf þar sem hann sagðist harma það að verið væri að taka frítekjumark upp á 1.300 þús. kr. af á mánuði. Hann hefði getað notað það til að vinna á sumrin, eldri borgari, til að drýgja tekjurnar. Nú er það tekið í burtu. Ég veit ekki hverjar skýringar á því eru. Hvort þetta sé betra. Nú er stefnt að því að auka atvinnuþátttöku eldri borgara, gefa þeim sveigjanleg starfslok. Það er fullt af eldri borgurum á Íslandi sem geta unnið miklu lengur. En það verður þá að vera hvati til þess. (ELA: 450 þús. kr. hærri.) Hærri? (ELA: Fjögur … eða undir …) Ókei. Ég og hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir erum að ræða saman hér í þingsal, það kannski má ekki alveg.

En alla vega, ég veit ekki hvort ég á að gleðjast eða vera sorgmæddur, nema hvort tveggja sé. Ég viðurkenni fúslega og hef sagt það áður að ég skil þetta ekki alveg. Ég á ofboðslega erfitt með að skilja þetta kerfi. Þetta er svo flókið að ekki nema færustu menn skilja það. Einhver sagði að það væru tveir menn sem skildu þetta á Íslandi. Ég er ekki annar þeirra. Það er alveg á hreinu. En ég vona samt að þetta verði kannski samþykkt og þetta verði skref, smáskref í rétta átt, en það er alveg ljóst að við verðum að gera miklu betur.