145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:13]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Það er kannski dálítið alvarlegt þegar nefndarmaður kemur og viðurkennir að hann skilji þetta ekki. Ég er bara heiðarlegur. Ég hef setið í velferðarnefnd í einungis eitt ár, hef því ekki verið allt þetta kjörtímabil. Það hefur komið fram að þetta frumvarp kom seint inn. Að störfum hefur verið nefnd sem ég var reyndar tilnefndur í en sat ekki í henni vegna þess að varamaðurinn sem þá var í velferðarnefnd vildi sitja í henni. Kannski hefði verið betra að hún, þ.e. varamaðurinn, hefði verið hér að svara fyrir þetta. En ég verð að viðurkenna að ég held að margt megi betur fara hvað varðar fræðslu og upplýsingar í sambandi við svona mál. Ég veit að ef ég næ áframhaldandi kjöri sem þingmaður mun það verða eitt af mínum fyrstu verkum að fara á námskeið um þetta kerfi. Ég hef ámálgað það bæði við Öryrkjabandalagið og Tryggingastofnun að mér finnst að fólk sem velst í nefndir eigi að gera það, nú veljumst við oft í nefndir eftir okkar áhugasviðum og hvað við viljum sjá gerast t.d. í velferðarnefnd. Það eru náttúrlega allir sem vilja betri velferð. Ég segi það alveg fullum fetum að ég hefði viljað fá fræðslu og jafnvel námskeið um almannatryggingakerfið hjá fólki sem starfar við þetta alla jafna alla daga.

En eins og fram kom áðan kom þetta mál seint inn í þingið. Það er meira í gangi en bara þetta, við erum líka búin að vera nánast í kosningabaráttu á meðan við erum að ræða málið. Það er mikið að gerast. En það er svo sem engin afsökun fyrir nefndarmann að segja það. En ég viðurkenni það fúslega og ég skammast mín ekkert fyrir það, þótt það sé kannski ekki gott afspurnar, að ég þekki þetta kerfi ekki nógu vel og á mjög erfitt með að átta mig á því. Hvers vegna þetta er svona og hinsegin, framfærsluuppbót, heimilisuppbót, maki, skerðingar, króna á móti krónu. Þetta er gríðarlega flókið.