145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er viss um að hæstv. forseti sem er árvökull maður með góða heyrn heyrði það sama og ég. Hv. þingmaður fór eins langt og hægt er frá spurningu minni um það hvort hann teldi að það væri að lifa með reisn að skagfirskum hætti að bjóða fólki upp á að lifa á strípuðum bótum og eiga stundum ekki fyrir lyfjum. Er það að lifa með reisn? Ég skil vel að hv. þingmaður fari á flótta undan slíkum spurningum.

Hv. þingmaður er skýr í máli, á auðvelt með að einfalda flókna hluti. Ég þarf engan töflufund með honum. Ég þarf bara að hlusta á hann. Hv. þingmaður sagði hér áðan sjálfur að það hefði verið bætt við hjá öryrkjum með því að auka í sérstaka heimilisuppbót. Það er akkúrat það sem hann vill ekki sjálfur, vegna þess að þar er skerðingin króna á móti krónu. Það er atvinnuletjandi.

Hv. þingmaður hefur bæði með innkomu sinni á þingið nú og áður þegar hann hefur verið hér haldið innblásnar og fjálgar ræður um það að Sjálfstæðisflokkurinn vilji endilega byggja upp kerfi sem hvetji menn til þess að fara út á vinnumarkað. Til þess er starfsþjálfunin og starfsgetumatið. Það er það sem hann vill. Ég skil það alveg. Ég fylgi því og hef alltaf fylgt því. En á sama tíma kemur hv. þingmaður og talar um það sem einhvers konar stórkostlegt afrek þessarar ríkisstjórnar að koma með breytingar sem beinlínis letja menn til þess að gera það sem hann vill, komast út á vinnumarkaðinn. Það er þetta sem ég á við að hér rekst hvað á annars horn.

Því miður verð ég að segja það eins og ég hef oft dáðst að hv. þingmanni Óla Birni Kárasyni að hann olli mér vonbrigðum núna og þó kannski mestum undir lok ræðu sinnar þegar þessi ágæti talsmaður frjálshyggjuarms Sjálfstæðisflokksins talaði hér allt í einu eins og honum væri jafnaðarhugsjónin tærust og skærust í brjósti.