145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[15:54]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um lög um almannatryggingar, lög um félagslega aðstoð og lög um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Það verður að segjast eins og er að hér erum við að koma með í höfn gríðarlega mikilvægt mál eins og hér hefur margoft komið fram, hófst í nefnd Péturs heitins Blöndals, svokallaðri Pétursnefnd. Nefndin var að störfum í tæp þrjú ár og skilaði hér mikilvægu og góðu starfi sem hæstv. forseti lauk við að stjórna, gerði það af röggsemi eins og annað sem hann gerir.

Það var mjög ánægjulegt að sitja í velferðarnefnd og fá málið til afgreiðslu þar. Fjöldi gesta kom til okkar og ræddi þetta mikilvæga mál. Það má segja að það hafi verið samdóma álit þeirra sem komu fyrir nefndina að tekist hafi vel til og þeir lýstu mikilli gleði og ánægju með þá einföldun sem gerð er á bótakerfinu sem er trúlega þegar upp er staðið mikilvægasti þáttur þessarar lagasetningar, langmikilvægasti þáttur. Fyrir okkur sem komum ný inn á þing í upphafi kjörtímabilsins og vorum í velferðarnefnd tók það nú bara mjög langan tíma að setja sig inn í málin og átta okkur á öllum þeim flækjum og skerðingum sem einkenna laun eldra fólks frá Tryggingastofnun. Ég held að það sé samdóma álit þeirra sem hafa fjallað um þetta mál að vel hafi tekist til við að einfalda lögin og gera eldra fólki og okkur auðveldara með að skilja þetta, auðveldara með að skilja launaútreikninginn og sjá hvað fólk er að fá í laun fyrir það að vera eldri borgari.

Það var sérstaklega ánægjulegt að finna þann mikla kraft sem einkenndi Landssamband eldri borgara, þau fylgdu þessu máli fast eftir og voru í stöðugu sambandi við okkur nefndarmenn, athuguðu með framgang málsins og þar kom alltaf mjög skýrt fram að mikilvægast af öllu í þessari lagasetningu væri kerfisbreytingin, það væri hún sem skipti öllu máli, að hún næði fram að ganga. Ég sé ekki betur en það nái fram. Ég gleðst auðvitað yfir því með þingheimi öllum að það skuli verða að veruleika síðar í dag eða ekki síðar en á morgun.

Það er kannski óþarfi að ég fari í ræðu minni að endurtaka allt það sem hér hefur verið sagt, en ég vil þó taka undir það að hér er verið að leggja 11 þús. millj. kr., 11 milljarða, inn í þetta kerfi til að bæta hag eldra fólks og öryrkja. Það er ekki hægt að koma hér í ræðustól og ræða þessi mál öðruvísi en að lýsa ákveðnum vonbrigðum með það að öryrkjar þessa lands fylgi ekki alveg með í þessum kjarabótum sem hér nást fram þar sem það slitnaði upp úr viðræðum við Öryrkjabandalagið í nefndinni um starfsgetumatið sem er líka svo mikilvægt mál. Ég ber hag öryrkja mjög fyrir brjósti og mér finnst að bara það eitt og sér að fara að tala um starfsgetumat í staðinn fyrir örorkumat sé gríðarlegur munur. Mér finnst það hefja viðkomandi meira upp en ef talað er um örorkumat. Ég vil alls ekki tala niður til öryrkja í þessu sambandi, heldur tel ég að það sé mikilvægt fyrir okkur þingmenn, atvinnulíf í landinu, að átta okkur á því að stór hluti af þessu fólki hefur áhuga og vill af öllum mætti komast aftur út á vinnumarkaðinn. Mér finnst að atvinnulífið í landinu og stofnanir ríkisins eigi að bjóða þetta fólk velkomið inn á vinnumarkaðinn í hlutastörf og eftir atvikum fullt starf vegna þess að það er mikilvægt að gefa þeim það tækifæri að geta sannað sig í því að vinna úti á hinum almenna vinnumarkaði, byrja í hlutastarfi og fikra sig áfram. Hjá öllum þeim sem þiggja lífeyri frá Tryggingastofnun, öryrkjum og öðrum, er markmiðið auðvitað alltaf að geta unnið fyrir sjálfum sér og fjölskyldu sinni með því að vinna á vinnumarkaði og geta þannig framfleytt sér og sínum. Það er alltaf mikilvægast.

Auðvitað verður það svo, virðulegi forseti, að það mun aldrei gilda um alla. Við munum alltaf verða með einhverja sem munu aldrei fara út á vinnumarkaðinn og það er mjög mikilvægt að við höldum áfram að styrkja stöðu þeirra eins og hægt er og að þeir búi við þau bestu kjör sem sambærilegir hópar búa við. Þess vegna er mjög mikilvægt að nú þegar næsta þing kemur saman, eins fljótt og auðið er, nái Öryrkjabandalagið og ríkisvaldið samningum sem verði á svipuðum nótum og við erum að tala um hér og öryrkjar sleppi við það að búa við þau ömurlegu kjör að enn þá sé verið að skerða krónu á móti krónu. Eðlilega nær það ekki í gegn núna þar sem þeir voru ekki í samfloti í heildarsamningnum. Ég legg gríðarlega mikla áherslu á þetta og ég finn það á þingheimi öllum og þeim sem ég ræði við hér í þinginu að það er vilji allra að bætt verði úr því sem allra fyrst. Ég óska þess að það gerist mjög fljótlega.

Við erum búin að fara yfir það hvað 25 þús. kr. frítekjumark getur skipt miklu máli fyrir mjög marga sem eru á lægstu bótum, auðvitað erum við ekki að tala um háar upphæðir en fyrir þá sem eru á lægstu bótum skiptir það ótrúlega miklu máli.

Ég segi fyrir mig að þegar þessi lög verða samþykkt og þessi kjör verða að veruleika er næsta verkefni okkar og Alþingis á næstu árum að minnka enn skerðingarhlutföllin og gera tekjur þessa fólks betri og meiri. Það eru auðvitað margar leiðir til þess, en ég segi: Við erum að stíga núna stórt og mikið skref í réttlætisátt með því að bæta kjörin. Ég segi fyrir mig: Þetta er gott skref fram á veginn. Við erum búin að taka mörg góð skref á þessu kjörtímabili. Við erum búin að hækka laun eldri borgara, eldra fólks og öryrkja um u.þ.b. 25% frá því árið 2013. Það var líka fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar að endurskoða skerðingar sem settar voru af fyrrverandi ríkisstjórn haustið 2009. Auðvitað voru erfiðar aðstæður í landinu þá, en það var kannski að bera í bakkafullan lækinn að byrja á því að skerða laun eldri borgara sem námu u.þ.b. 5 þús. millj. kr. á ári þegar ríkissjóður var rekinn með u.þ.b. 100 milljarða tapi og var kannski ekki upphæðin sem velti því hlassi, var kannski minnst þegar upp var staðið.

Hvað um það. Ég held að það sé líka mikilvægt fyrir okkur að skoða atvinnuþátttökuna í framhaldinu. Eins og ég var að tala um held ég að það sé mikilvægt að við skoðum fleiri möguleika sérstaklega fyrir eldra fólk og auðvitað fyrir öryrkja með því að gera það eftirsóknarverðara fyrir atvinnurekendur að taka þetta fólk í vinnu og skoða hvort ekki væri rétt að nýta skattkerfið til þess. Til dæmis að tryggingagjald af eldri borgurum, 67 ára og eldri eins og þetta er núna, verði kannski hálft gjald til þess að draga þessa einstaklinga inn á vinnumarkaðinn. Í þessum hópi er oft mikilvægasta fólkið, fólkið með mestu reynsluna, fólkið með bestu þekkinguna, fólk sem við megum ekki við að missa út af vinnumarkaði. Í dag eru sem betur fer mjög margir 67 ára og eldri í mjög góðu formi, fólk sem getur og vill halda áfram að vinna en kærir sig ekki um það vegna þess að það sem það hefur náð sér inn hefur kannski allt farið í skerðingar. En núna erum við að horfa fram á að skerðingarhlutfallið verði 45% af öllum tekjum. Það er líka mikilvægt að halda því til haga að skerðingarhlutfallið er af öllum tekjum og það bætir auðvitað mikið hag þeirra sem hafa haft lífeyristekjur eða fjármagnstekjur sem hafa engin skerðingarmörk haft eða nánast engin á síðustu árum. Þetta hefur líka mikla bót í för með sér.

Ég vil líka segja það, virðulegur forseti, áður en ég lýk máli mínu að það kom mér mjög á óvart að eftir að þetta mál kom fram og sérstaklega eftir að viðbótartillagan kom fram um auknar tekjur, frítekjumörkin og hækkun lágmarkslauna 1. maí 2017 í 280 þús. kr. og í 300 þús. kr. í maí 2018, fór nú bara allt á hliðina hérna í þinginu. Ég held að ástæðan fyrir því hafi fyrst og fremst verið sú að minnihlutaflokkunum í þinginu hafi fundist það eitthvað óþægilegt að slíkar kjarabætur, slík risastökk sem við höfum verið að taka, skuli gerast á vakt Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn. Það eru akkúrat þessir flokkar sem hafa staðið að því að bæta kjör eldri borgara. Þó að margir hafi verið ánægðir á undanförnum árum þá skulum við ekki gleyma því að það var okkar fyrsta verk að draga til baka skerðingar sem voru gerðar 2009. Því verður ekki á móti mælt. Það var auðvitað ekki allt klárað, en það voru stigin stór skref, stór og mikilvæg skref. Við erum að halda áfram og við ætlum okkur að halda áfram.

Það eru líka mjög mikilvæg skilaboð sem fylgja úr þessum stól að við ætlum að halda áfram að bæta kjör þessara hópa, það er alla vega vilji minn, auka atvinnuþátttöku þeirra og gera líf þeirra eins bærilegt og hægt er. Ég hef sagt það mjög oft úr þessum stól, mjög oft, að við, það fólk sem situr á þingi, munum verða dæmd af því hvernig stöðu við skilum eldra fólki í landinu, komum þeim á þann kjöl að það geti lifað áhyggjulaust ævikvöld. Það á að vera þakklæti okkar til þessa hóps sem gaf okkur þetta land og þetta frábæra líf sem við lifum. Það fékkst ekki baráttulaust. Við njótum þess og við þurfum að gjalda þessu fólki það með því að búa þeim áhyggjulaust ævikvöld. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt.

Rétt í lok ræðu minnar, virðulegur forseti, vil ég enn og aftur segja: Þessi skref eru fyrstu skref á langri leið, á leið til bættra kjara fyrir eldra fólk og öryrkja þessa lands.