145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[16:14]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að svara hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur. Ég tek undir áhyggjur Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar af því að fólk með skerta starfsorku fái ekki vinnu við sitt hæfi. Ég held að það hljóti að vera mjög mikilvægt markmið okkar allra, velferðarnefndar og þingsins, að koma því til leiðar að atvinnulífið og stofnanir þessa lands taki öryrkja og þá sem hafa lakara starfsgetumat til vinnu. Mér hefur jafnvel dottið í hug að ástæða væri til að setja um það lög að stofnanir og fyrirtæki með ákveðinn starfsmannafjölda skyldu hafa einstakling úr þeim hópi í vinnu hjá sér. Mér finnst bara vont að setja lög um slíkt. Ég hefði kosið að atvinnulífið mundi sjálft stíga fram og bjóða þessu fólki vinnu.

Við vorum að tala um að öryrkjar og þeir sem hafa lægra starfsgetumat geti fengið hálfar bætur og geti unnið fulla vinnu án þess að það skerði bæturnar. Það eru því ýmsar leiðir sem við erum sammála um að … (Gripið fram í.) — Það er akkúrat verkefnið sem ég og hv. þingmaður erum sammála um að sé mjög mikilvægt. Það er mjög mikilvægt verkefni. Við skulum tala fyrir því á næsta þingi, þeir sem hér verða í salnum, að sú leið opnist.

Varðandi vægi bótaflokksins var þetta kannski einfaldasta leiðin en um leið er hún lökust fyrir þetta fólk okkar. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé, og það er verkefnið núna, (Forseti hringir.) að við náum saman og klárum þessa samninga, svo að þetta góða fólk okkar búi við sömu kjör. Og við viljum að það búi svipað og eldri borgarar, þótt það sé ekki hægt að bera (Forseti hringir.) kjör þeirra algjörlega saman.