145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[16:29]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óttast að hv. þingmaður skilji enn síður en áður hvað felst í almannatryggingum eftir þessa ræðu. Þessi einföldun á kerfinu er t.d. til að koma í veg fyrir svona bakreikninga eins og talað var um áður. Þetta er mikil einföldun. Þetta er miklu hreinna. Það er alveg rétt að auðvitað hefur verið erfitt fyrir þá einstaklinga sem ekki hafa verið á vinnumarkaði, búa einir og hafa verið með strípaðar greiðslur. Hér er verið að bæta kjör þeirra. Vegna þess að þeir voru eiginlega undir framfærsluviðmiðum. Þeir sem hafa hins vegar tekjur annars staðar og eru í sambúð, þá er auðvitað lægri framfærsla. Þetta eru almannatryggingar. Það er ekkert réttlæti í því að menn fái fullan ellilífeyri og hafi síðan víðs vegar tekjur annars staðar. Þá eru þeir komnir langt umfram launamenn, jafnvel bara millitekjufólk. Það er ekkert almannatryggingakerfi. Það er auðvitað bara orðið rugl og á ekki að gerast. Við erum einungis að tryggja það að enginn sé undir einhverjum viðmiðum, að enginn sé þannig staddur að hann eigi ekki fyrir nauðsynjum og nái ekki endum saman um hver mánaðamót. Um það snýst þetta frumvarp, um það snúast almannatryggingar. Þess vegna eiga menn að koma hingað og hoppa hæð sína af gleði, hv. þingmaður.