145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[16:31]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki alveg rétt hjá hv. þingmanni að frumvarpið komi algerlega í veg fyrir alla bakreikninga og sé einföldun. Það er einfaldlega ekki rétt. Það er mjög umdeilt hvort svo sé. Ég þarf því að setja smá fyrirvara við þessar ábendingar frá hv. þingmanni. Ég get ekki alveg hoppað hæð mína af gleði hér í pontu. Ég er ekki alveg viss um að virðulegum forseta þætti það við hæfi.

Ef markmið almannatrygginga er að allir eigi bara að vera u.þ.b. við framfærsluviðmiðið og geti aldrei gert nokkurn skapaðan hlut umfram það, þá er það nákvæmlega það sem við erum ósammála um. Mér finnst allt í lagi að fólk geti lifað sómasamlegu lífi. Mér finnst að framfærsluviðmið eigi að vera nákvæmlega það sem hv. þingmaður benti á. Þetta er grunnframfærsla, það kostar að lifa og eiga fyrir reikningunum sínum. En mér finnst allt í lagi að fólk sem getur þénað aðeins meira eða hefur safnað inn á reikninga eða fær arf, að slíkt skerðist ekki allt í einu um 50–60%. Mér finnst allt í lagi að fólk geti leyft sér að fara til Flórída af og til eða Spánar eða Kaupmannahafnar að heimsækja börnin. Mér finnst það allt í lagi. Mér finnst líka allt í lagi að bæði öryrkjar og ellilífeyrisþegar geti safnað sér peningum og notið þeirra gæða án þess að allt sé bara skert, liggur við krónu á móti krónu. En hv. þingmanni finnst greinilega allt í lagi að fólk lifi nákvæmlega við framfærsluviðmiðið, ekki mikið fyrir ofan, það er of mikið, en kannski fyrir neðan. Það virðist vera allt í lagi fyrir hv. þingmann. Þess vegna er mér illt í réttlætiskenndinni. Það er nákvæmlega þetta viðhorf sem ég á mjög erfitt með að skilja, að þeir sem eru á bótum frá ríkinu eða lífeyri megi bara hafa það skítt. Það virðist vera viðhorf hv. þingmanns. Ég er ósammála því.