145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[16:34]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra með síðari breytingum. Hér hafa nokkrir þingmenn tekið til máls og verið alveg hreinskilnir með það að segja að þeim finnist kerfið flókið — kerfið er flókið — og að þeir eigi erfitt með að skilja það. Mig langar því að leggja það til að á næsta þingi, nú að afloknum kosningum, verði Tryggingastofnun ríkisins fengin til að halda námskeið eða kynningu á almannatryggingakerfinu. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að slík kynning sé ekki einvörðungu fyrir hv. þingmenn sem sæti eiga í hv. velferðarnefnd þótt það sé kannski mikilvægast að þeir af öllum skilji kerfið, heldur er ég þeirrar skoðunar að það væri þessum málaflokki mjög til bóta ef þingmenn almennt hefðu á því góða þekkingu hvernig almannatryggingakerfið virkar. Almannatryggingakerfið er jú eitt það mikilvægasta sem við eigum í okkar velferðarsamfélagi. Þess vegna er mikilvægt að þingmenn, sem fara með framfærslu fólks sem hefur skerta starfsgetu, þekki bæði kerfið og kjörin sem fólk býr við. Hljóti ég endurkjör mun ég tala fyrir því að kosningum loknum að Tryggingastofnun verði fengin til að halda slíka kynningu fyrir þá sem hafa áhuga á og ég vona svo sannarlega að sem flestir hafi áhuga á þessum málum.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem er framsögumaður nefndarálits minni hluta hv. velferðarnefndar, fór í ræðu sinni vel í gegnum nefndarálit minni hluta velferðarnefndar sem og þær breytingartillögur sem hv. nefnd leggur til. Ég ætla þess vegna ekki að fara í gegnum nefndarálitið aftur lið fyrir lið en ætla að nota ræðutíma minn hér til að draga út sérstaklega nokkur atriði sem mér finnst skipta sérstaklega miklu máli varðandi breytingar á lögum um almannatryggingar.

Fyrst verð ég að nefna að frumvarpið, þ.e. hið upphaflega frumvarp frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, barst nokkuð seint til þingsins og þá strax sætti það gagnrýni fyrir að taka einvörðungu til ellilífeyrisþega. Það sætti einnig mikilli gagnrýni að ekki væru lagðar til neinar breytingar á hækkunum á greiðslum til lífeyrisþega í samræmi við kjarabætur á vinnumarkaði og að frumvarpið, eins og það kom þá fram, gerði ekki ráð fyrir neinum hækkunum til þeirra ellilífeyrisþega sem eru á strípuðum bótum úr almannatryggingakerfinu. Þetta er auðvitað sá hópur eldri borgara sem er í erfiðastri fjárhagslegri stöðu. Sem betur fer er það þannig hér á Íslandi að margir eldri borgarar hafa það alveg þokkalegt og sumir mjög gott. En það er hins vegar hópur sem ekki á mikið eða jafnvel ekkert í lífeyrissjóði og verður því alfarið að reiða sig á greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Það er ótækt að kjarabætur nái ekki til hans eins og meiri hlutinn hér á Alþingi sá og leggur þess vegna til breytingartillögur við frumvarpið.

Þær tillögur sem meiri hluti hv. velferðarnefndar leggur til komu hins vegar gríðarlega seint fram eða eftir að starfsáætlun Alþingis var lokið og í raun í lok þeirrar viku þar sem Alþingi hafði verið starfandi án starfsáætlunar. Þó svo að auðvitað sé betra að breytingartillögurnar komi fram en alls ekki varð þetta til þess að afar skammur tími gafst til að leggja mat á áhrif breytingartillagnanna og fulltrúar minni hlutans í hv. velferðarnefnd óskuðu eftir sviðsmyndum um það hvaða áhrif þessar breytingartillögur hefðu á ákveðna hópa og kölluðu einnig eftir útreikningum um þau áhrif sem aðrar útfærslur hefðu, jafnvel með sama fjármagni og meiri hluti hv. velferðarnefndar er að leggja til. En vegna hins knappa tímaramma var ekki hægt að verða við þessari ósk. Það er auðvitað bagalegt, sviðsmyndir eru svo mikilvægar í kerfinu vegna þess að það er ekki einfalt. Í raun er sama hversu vel maður þekkir kerfið og hin ólíku skerðingarhlutföll sem eru í því, þegar hreyft er við einu litlu tannhjóli í heildarmyndinni fara hreyfingar af stað sem erfitt ef ekki ómöguleg er að sjá hvaða áhrif munu hafa á lokagreiðsluna sem lífeyrisþeginn fær í vasann og hefur sér til framfærslu.

Þetta gerði líka að verkum að minni hluti hv. velferðarnefndar, sem er gagnrýninn á breytingartillögur meiri hlutans, hafði einnig mjög knappan tíma til að bregðast við og móta sínar tillögur. Það er ekki síst þess vegna sem minni hlutinn leggur það til að allir bótaflokkar hækki um 13,4% til þess að greiðslur almannatrygginga haldi í við umsamdar hækkanir á vinnumarkaði. En líka til þess að óvæntar hreyfingar fari ekki af stað sem við getum ekki vitað fyrirfram hverjar afleiðingarnar verða af. Við megum aldrei gleyma því að það er framfærsla fólks sem við erum með í höndunum og erum að vinna með.

Varðandi eldri borgara þá er með frumvarpi hæstv. ráðherra verið að fækka bótaflokkum niður í einn og afnema frítekjumörk og eitt skerðingarhlutfall er innleitt á allar aðrar tekjur. Þetta skerðingarhlutfall verður 45%. Ég er alls ekki mótfallin einföldun á kerfinu og held reyndar að það sé mjög nauðsynlegt að einfalda kerfið til að það verði skiljanlegra. Ég vil þó jafnframt segja að við alla einföldun á kerfinu verðum við samt alltaf að passa okkur að missa ekki sjónar á því að þó svo að kerfið verði einfalt þá megi það ekki verða til þess að það verði á einhvern hátt óréttlátt.

Til þess að ná að hækka bætur ellilífeyrisþega upp í 280 þús. kr. er farin sú leið að gera það í gegnum heimilisuppbótina. Ég er mjög hlynnt því að heimilisuppbót sé greidd til þeirra sem búa einir. En það verður að hafa það hugfast að heimilisuppbótin, sérstaklega í þeim breytingartillögum sem hér eru lagðar fram, tekur öðrum og meiri skerðingum vegna tekna en hin sameinaði bótaflokkur lífeyrir. Það má því segja að með því að setja alla hækkunina inn í heimilisuppbótina sé ríkisvaldið að gefa með annarri hendinni en taka til baka með hinni. Þetta verður að hafa í huga.

Hvað varðar öryrkjana var, eins og ég kom að hér áðan, í frumvarpi hæstv. ráðherra ekki gert ráð fyrir neinum breytingum eða hækkunum til öryrkja í frumvarpinu. Það sætti gagnrýni. Meiri hluti hv. velferðarnefndar velur að fara þá leið til að hækka öryrkja, til að geta sagst vera að hækka öryrkja upp í 280 þús. kr. til samræmis við lágmarkslaun árið 2017, að hækka framfærsluuppbótina sem skerðist krónu á móti krónu. Þetta gagnrýnum við í minni hlutanum harðlega. Þetta er jú sá bótaflokkur sem er með 100% skerðingarhlutföll. Með þessari breytingu er verið að festa enn frekar í sessi þennan bótaflokk sem skerðist krónu á móti krónu og stækka þann hóp öryrkja sem fær greiðslu samkvæmt þessu kerfi. Hingað til hefur samstaða verið um að draga eigi úr vægi þessa bótaflokks í kerfinu. Það er galli að þessi bótaflokkur er afskaplega atvinnuletjandi.

Ég hef ekki heyrt neinn þingmann og raunar ekki neinn sem ekki er sammála því að atvinnuþátttaka fólks með skerta starfsgetu sé af hinu góða. Bæði vegna þess að þar með getur einstaklingurinn bætt hag sinn fjárhagslega en atvinnuþátttaka skiptir ekki síður máli félagslega. Það er jú í gegnum atvinnu sem fullorðið fólk tekur hvað mest þátt í samfélaginu. Einn af stóru áhyggjuþáttum Öryrkjabandalagsins varðandi kerfisbreytingu og innleiðingu á starfsgetumati, þar sem fólk með skerta starfsgetu á aðeins að fá greiddar hlutabætur úr kerfinu en hafa atvinnutekjur á móti, eru áhyggjur af því hversu tilbúinn vinnumarkaðurinn sé til að ráða fólk með skerta starfsgetu til vinnu. Nú hefði einmitt verið lag, að mínu mati, til þess að draga úr vægi þessa bótaflokks sem er svo atvinnuletjandi, einmitt til að sjá hvað gerist, til að sjá hvort fleiri öryrkjar reyni ekki að fara út á vinnumarkaðinn og sjá á sama tíma hversu vel þeim gengur að fá vinnu. Mér finnst það mjög dapurlegt að meiri hlutinn ætli að leggja til að þessi bótaflokkur fái aukið vægi. Það verður til þess að öryrkjar reyna enn síður að fá vinnu eins og starfsgeta þeirra leyfir vegna þess að það er ekkert upp úr því að hafa fjárhagslega; jafnvel að aukinn kostnaður geti fallið til.

En af því að tími minn er að styttast og ég hef aðallega verið að eyða mínútunum mínum í að ræða um eldri borgara og öryrkja og gagnrýna þá leið sem meiri hlutinn leggur til til að bæta kjör þeirra langar mig samt að segja örfá orð um hækkun á lífeyristökualdri og sveigjanleg starfslok. Við í minni hlutanum erum afar fylgjandi markmiðinu um sveigjanlegan ellilífeyristökualdur og teljum jákvætt að fólk geti haft val um hvort það hefur töku ellilífeyris fyrr eða frestar henni. Við erum hins vegar þeirrar skoðunar að skoða verði allar breytingar á lífeyristökualdri í samhengi. Þar sem við höfum komist að því að ómögulegt sé að ljúka við vinnu um breytingar á frumvarpi um breytingar á lífeyri opinberra starfsmanna þá sé rétt í almannatryggingakerfinu að bíða einnig með allar tillögur um hækkanir á lífeyrisaldri vegna þess að þessi kerfi verða að tala saman og þetta verður að skoðast í samhengi.

Að lokum verð ég að segja að við í Vinstri grænum gerum fyrirvara við 18. gr. frumvarpsins. En þar sem tími minn er búinn sé ég að ég verð að setja mig aftur á mælendaskrá til að gera grein (Forseti hringir.) fyrir fyrirvara okkar í Vinstri grænum. Ég mun þá einnig nota síðari ræðutíma minn til þess að fara betur yfir breytingartillögur minni hlutans.