145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að þakka fyrir góða umræðu um þetta mikilvæga mál. Hér er um að ræða stærstu skref sem stigin hafa verið til bóta í almannatryggingakerfinu í áratugi. 5,3 milljarðar fara í kerfisbreytingar fyrir aldraða, einföldun á kerfinu til að minnka skerðingarnar sem voru króna á móti krónu, þeim er hætt. 4,5 milljarðar fara í frítekjumark á allar tekjur til aldraðra. 1 milljarður fer í að hækka bætur þeirra sem lægstu kjörin hafa, einstæðinga sem eru öryrkjar og aldraðir. Þetta eru alls 10,8 milljarðar og mikil einföldun á kerfinu sem snýr að öldruðum.

Nú eru viðræður á milli Öryrkjabandalagsins og velferðarráðuneytisins um mikilvægar kerfisbreytingar til handa öryrkjum. Ég vona svo sannarlega að þær umræður gangi hratt og vel fyrir sig svo að öryrkjar fái kerfisbreytingar á sínum málaflokkum eins og aldraðir. Það er mikilvægt. Ég veit að unnið er hörðum höndum að því að klára það. Þar undir liggja um 4 milljarðar í kerfisbreytingar til hagsbóta fyrir öryrkja. En auðvitað er mikilvægt í allri þeirri umræðu að huga að öryggisneti í kerfinu.

En ég kom hér eingöngu upp til þess að þakka fyrir umræðuna og minna á að það er mikill vilji til að koma til móts við þá sem höllum fæti standa. Ég þarf að kalla frumvarpið til hv. velferðarnefndar á milli 2. og 3. umr.