145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[17:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, barnalífeyrir.

Meiri hluti nefndarinnar afgreiddi málið til 2. umr. 24. ágúst sl. Við umræðu í þingsal var bent á að staðgöngumæðrun er óheimil á Íslandi og í ljósi þess var ákveðið að taka málið aftur inn í nefndina og leggja til breytingu á orðalagi.

Meiri hlutinn áréttar að frumvarpinu er ætlað að stuðla að jafnrétti barna einstæðra foreldra og tryggja að eins sé staðið að opinberum stuðningi við einstæða foreldra, óháð kynferði. Breytingin tryggir að réttur einstæðs föður til barnalífeyris einskorðist ekki við andlát móður heldur nái jafnframt til annarra mögulegra aðstæðna. Þannig verði jafnrétti barna einstæðra foreldra tryggt, óháð ástæðum þess að svo sé fyrir komið, í samræmi við þá hugsjón að baki greiðslu barnalífeyris að tryggja öllum börnum lágmarksframfærslu.

Að teknu tilliti til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„1. gr. orðist svo:

Við 4. mgr. 20. gr. laganna bætist: eða móður nýtur ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna.“

Ásmundur Friðriksson og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Halldóra Mogensen, áheyrnarfulltrúi, er samþykk áliti þessu.

Undir þetta rita nefndarmenn, sú sem hér stendur, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Páll Valur Björnsson, Óli Björn Kárason, Unnur Brá Konráðsdóttir og Elsa Lára Arnardóttir.