145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar.

197. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Við 2. umr. um þetta mál, um breytingu á lögum um almannatryggingar sem snýr að barnalífeyri, var mikil gagnrýni á það að hér væri verið að lauma staðgöngumæðrun í lögskýringarbókina, en eins og við vitum öll er staðgöngumæðrun óheimil á Íslandi. Eftir þessa miklu umræðu var ákveðið að kalla málið aftur inn til velferðarnefndar og vinna að því að breyta orðalaginu til þess að ná því sem vísar beinlínis í staðgöngumæðrun út úr lagatextanum. Það er gert hér með orðalagsbreytingu þar sem bætt er við 4. mgr. 20. gr. laganna texta þar segir, með leyfi forseta: „eða móður nýtur ekki við vegna sérstakra eða óvenjulegra aðstæðna.“

Í mínum huga er þetta auðvitað betra orðalag en að tala um staðgöngumæðrun með beinum hætti, en í mínum huga er þó enginn efi um það hvað í raun er átt við. Af þeim sökum ákvað ég að skila inn séráliti um þetta mál. Það er mjög stutt. Ég ætla þess vegna, með leyfi hæstv. forseta, að fá að lesa það beint upp:

„Minni hlutinn ítrekar að staðgöngumæðrun er óheimil á Íslandi. Minni hlutinn styður heils hugar að staðið sé eins að opinberum stuðningi einstæðra foreldra, óháð kynferði, og er fylgjandi því að réttur einstæðs föður til barnalífeyris einskorðist ekki við andlát móður, heldur nái einnig til annarra orsaka, svo sem tilvika þar sem einhleypum karli hefur verið veitt leyfi til ættleiðingar barns. Þá á ekki að þurfa að taka það fram að óheimilt er að fara gegn lögum.“