145. löggjafarþing — 169. fundur,  12. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[18:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að flýta því að hækka eftirlaunaaldur á almennum markaði án samráðs við verkalýðshreyfinguna, þvert á það sem sammæli hefur orðið um í vinnu á vettvangi sameiginlegrar nefndar fulltrúa allra flokka og aðila vinnumarkaðarins. Þess vegna er óhjákvæmilegt annað en greiða atkvæði gegn þessu og sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórnin náði ekki, með þeim hætti að heildarsamtök opinberra starfsmanna væru sátt við, að koma að samkomulaginu um jöfnun lífeyrisréttinda. Það er sérlega öfugsnúið að þessu skuli vera fundinn staður í lagabreytingartillögu hér undir þinglok. Það er algjörlega óásættanlegt að greiða því atkvæði að fimm ára munur verði á því hvenær lífeyristökualdur hefjist á opinberum markaði og hjá almennu launafólki.